145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:26]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að taka fram að það er auðvitað margt gott í frumvarpinu, bara svo því sé haldið til haga þó að ég hefði viljað sjá að menn gengju lengra.

En þegar við erum að tala um launaafdrátt skulum alveg vera heiðarleg með það að við beitum þeirri aðferð nú þegar í dag. Ef við gerum það við meðlagsgreiðendur og það er í lagi. Þá spyr ég: Af hverju er það þá ekki í lagi ef fólk skuldar skatt og hefur beinlínis verið dæmt fyrir það? Ef okkur finnst launaafdráttur vera mannréttindabrot eða eitthvað óréttlátt þá skulum við bara skoða það alveg frá grunni en ekki mismuna hópum í því efni.

Það er margt hérna sem ég gæti svo sem rætt, en mig langar að nefna meðferðaráætlanirnar og það sem kemur fram í minnihlutaálitinu um að í raun sé verið að stíga skref til baka. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að stundum færi fólk í fangelsi í mjög stuttan tíma. Mér finnst það vera mjög bagalegt. Mér finnst mikilvægt að í boði séu meðferðaráætlanir og að það sé raunveruleg betrun í því vegna þess að hver fangi kostar pening, ég veit ekki hvað hann kostar, kannski 10 millj. kr. á ári. Ef við getum fækkað endurkomutíðni í fangelsi væri það mjög gott. Það er í rauninni alveg hægt að setja þar einhver viðmið og segja að fangi sem dvelur í fangelsi lengur en í hálft ár skuli eiga rétt á því að gerð sé meðferðaráætlun. Það má setja einhver tímamörk þarna í staðinn fyrir að það sé eitthvað svona hipsumhaps.

En það er rétt sem fram kemur hér, þetta er í rauninni frumvarp sem miðast við það að menn ætla ekki að setja þá peninga í málaflokkinn sem til þyrfti. Ég trúi því að forvarnir og betrun mundu skila sér til lengri tíma í sparnaði. Markmiðið ætti að vera að hafa sem fæsta í fangelsum landsins.

Hefði ekki verið hægt að gera betur varðandi meðferðaráætlanir sérstaklega?