145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig tveggja spurninga, í fyrsta lagi til hvaða stofnana væri best að leita til að hefja stefnumótun, heildarendurskoðun, með betrun að leiðarljósi. Ég hygg að það væri skynsamlegt að fara svipaða leið og var farin með útlendingalögin, þ.e. að fyrst sé settur saman hópur þingmanna og sérfræðinga sem reyni að finna út úr því hvernig sé best að því staðið.

Mér dettur þó í hug nokkrir aðilar, eins og fagfélög sálfræðinga, fyrrverandi fanga og eins og ég kom inn á í ræðu minni er Knut Storberget, fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs, mikill sérfræðingur um þessi mál, ég hefði viljað sjá meira af þeim áherslum sem hann kynnti á nýlegri ráðstefnu í þeirri vinnu. En þegar vinnan er eins góð og hún er hér þá er kannski ekki svigrúm til að fara í mjög mikla heildarendurskoðun á hinu háa Alþingi, enda mundum við venjulega láta einhverja starfshópa, jafnvel innan ráðuneyta, framkvæma slíkt. En ég hygg þó að fullur vilji sé til að gera þetta rétt. Það sem mér hefur alltaf fundist vera aðalvandamálið í þessum málaflokki er í reynd fjárskorturinn. Það væri svo margt sem væri hægt að bæta með einfaldlega meira fjármagni. En það sem mér þykir erfiðast við þetta og finnst mjög áberandi er að það vantar betrunarinntakið inn í þetta. Það er auðvitað ekki vegna þess að fólkið sem undirbjó þetta vilji ekki betrun, það er bara vegna þess að ég held að þetta sé málaflokkur sem fær sjaldan þann fókus sem hann þarf. Ég held að fólk átti sig sjaldnast á því að það þurfi aukinn pening í þetta.

Hvað varðar meðferðarúrræðin, virðulegi forseti, þá tel ég að það geti vel verið að ekki þurfi slík úrræði í öllum tilfellum, en ég held að það ætti samt alltaf að gera slíkt mat og þá mundi það bara leiða í ljós að engin þörf væri (Forseti hringir.) á frekari úrræðum.