145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:38]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála því. Mér finnst þetta mjög athyglisverð og spennandi leið, þessi möguleiki á sáttaumleitun. Til þess að hún geti gengið upp held ég að tvennt þurfi að koma til. Annars vegar sáttavilji þeirra sem í hlut eiga og löngun til þess að ná niðurstöðu, farsælli niðurstöðu. Hins vegar þekking þeirra sem aðstoða við þetta. Þetta er vandasöm leið sem krefst mikillar færni þeirra sem stýra slíku ferli. Ég mundi fyrst og fremst leggja áherslu á það. Einmitt þess vegna held ég að sé mikilvægt að þetta sé valkostur fyrir fólk en ekki nauðungarúrræði. Að dæma mann A til að sættast við B — ég er ekki alveg að sjá þann dans ganga upp. Hins vegar finnst mér að þetta eigi að vera valkostur og þess vegna megi beita talsverðum þrýstingi til þess að fólk leiti sátta, að sættir séu reyndar, því sáttin er auðvitað alltaf best. Hún er heilandi í sjálfu sér og ef hægt er að leysa mál með þeim hætti getur það líka sparað samfélaginu, dómskerfinu, lögregluyfirvöldum, að ég tali nú ekki um einstaklingum og þeim sem í kringum þá eru, mikla fyrirhöfn, tíma, erfiði og þrautir. Þannig að ég tek undir það. Mér finnst þetta mjög spennandi valkostur, en veldur hver á heldur. Það er ekki sama hvernig með þetta er farið.