145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir mjög upplýsandi ræður um frumvarp sem í mínum huga er einvörðungu bráðabirgðafrumvarp af því að það er alls ekki fullbúið. Ég hefði talið, það hefur áður komið fram í máli mínu, nauðsynlegt að þetta stóra mál væri rammi utan um það sem ég vil kalla betrunarstefnu, en er hér því miður túlkað sem fullnusta refsinga og refsistefna. Mér hefði þótt fara vel á því að hafa þverpólitíska þingmannanefnd eins og gert var í kringum útlendingalögin þar sem á opinn og gagnsæjan hátt væri rætt við alla þá er koma að málum, bæði þá sem tilheyra ráðuneytunum og þá sem starfa og eru í félögum sem láta sig þessi málefni varða, hvort heldur það er félag fanga eða mannréttindasamtök.

Ég óska þess í fullri einlægni — því miður er enginn úr meiri hlutanum í þingsal — og einurð að hlustað verði á minni hlutann í nefndinni. Margar af breytingartillögum meiri hlutans eru mjög til bóta og því mun ég greiða atkvæði með því. Ég mun þó gera það með óbragð í munni út af því að það er hægt að gera betur. Ástæðan fyrir því að ég er ekki sátt við frumvarpið í heild er einmitt sú að hér erum við að viðhalda úreltri refsistefnu sem mér finnst ekki við hæfi í dag. Eftir allt sem hefur komið fram í kringum þetta mál er alveg ljóst að maður skynjar að það er stemning fyrir því að fara af refsistefnuvegferðinni yfir í betrunarvegferð. Ég fagna því í það minnsta að við séum komin á þann stað að vera farin að tala um betrun og leiðir til að móta betrunaráætlun. Ég legg til að meiri hluti þingsins samþykki til dæmis allar breytingartillögurnar frá minni hlutanum þar sem orðið betrun er sett inn. Það er mjög einföld og lítil breyting en hún skiptir máli.

Það sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga og þurfa að tryggja, það sem mér finnst vanta inn í þetta, er að það er ekki nóg að hafa öryggisnet sem á einhvern veginn að þróast, ef ekki er skýr stefna um það þegar fólk kemur úr fangelsi. Ég hef hitt marga sem eru í limbóinu, þeir koma skyndilega úr fangelsi, fá oft og tíðum engan aðlögunartíma og fara bara beint í það sem þeir þekkja. Þetta er fólkið sem lendir aftur og aftur í fangelsi, mjög oft ungt fólk. Mér finnst miklu eðlilegra, ef einhver hefur framið þannig glæp að hann kallar eingöngu á mánuð í fangelsi, að fundin sé önnur leið til að bæta fyrir brotin. Þess vegna finnst mér eins og við séum rétt að byrja. Við erum rétt að byrja á þeirri vegferð að ræða um ný viðhorf gagnvart refsistefnu versus betrunarstefnu, og það endurspeglast alls ekki í þessum lögum.

Ég vil leggja til að þegar þetta verður samþykkt verði einvörðungu litið á þetta sem bráðabirgðalög því að við eigum eftir að vinna úr þeim álitamálum sem hafa komið fram í nefnd og meðförum þingsins frá fjöldamörgum aðilum. Ekki hefur verið brugðist við því með tilhlýðilegum hætti einfaldlega út af því að það er nánast ómögulegt, þetta er svo mikil loðmolla. Það hefur alls ekki verið tekið á mjög mörgu af því sem hefur verið mjög umdeilt og harðlega gagnrýnt í samfélaginu okkar þegar kemur að þessum málaflokkum.

Ég vil taka undir allt það sem kom fram í ræðu hv. þingmanna Helga Hrafns Gunnarssonar og Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og hvetja meiri hlutann til að leggja til að allar breytingartillögur minni hlutans verði samþykktar og jafnframt vil ég ítreka að þetta eru bráðabirgðalög. Við erum rétt að byrja og við eigum að skipa þverpólitíska nefnd á nákvæmlega sama hátt og við gerðum með útlendingalögin með svo góðu verklagi að enginn er brjálaður.

Ég hef lokið máli mínu, forseti.