145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

almenn hegningarlög.

100. mál
[17:35]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða örlítið þetta mál, frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, um samfélagsþjónustu ungra brotamanna.

Til að byrja með langar mig að fagna þeirri umræðu sem við höfum átt í dag um mál ráðherra um fullnustu refsinga. Fyrir nokkrum vikum síðan áttum við einnig mjög gott samtal í þingsal í sérstökum umræðum um sama málefni og tóku þingmenn úr öllum flokkum þátt. Segja má í stuttu máli að rauði þráðurinn í máli okkar hafi verið sá að fangelsisvist, fullnusta refsinga, eigi fyrst og fremst að hafa það að markmiði að betra fólk, að það fari betra út en það kom inn, að það eigi sér betri framtíð. Til þess þarf að leggja aukna áherslu á meðferðarúrræði innan fangelsa og menntunarmöguleika, eins og fram hefur komið hér í dag og víðar.

Þetta er það sem við erum sammála um. Rekstur fangelsa kostar peninga. En það kostar okkur líka peninga að glíma við þær afleiðingar sem afbrot hafa. Ég held að þegar allt sé talið sé það mun meiri kostnaður. Það skiptir því miklu máli að við höldum þessari umræðu áfram og bætum okkur á því sviði, vegna þess að úrbóta er svo sannarlega þörf. Við höfum rætt um plássleysi. Það eru langir biðlistar til þess að komast í fangelsin til að afplána.

Eins og ég sagði er þetta dýrt þannig að frumvarpið sem við ræðum, um aukna áherslu á samfélagsþjónustu og þá sérstaklega yngri afbrotamanna á aldrinum 15–21 árs, er mjög þarft úrræði að mínu mati. Það er ódýrara en að vista fólk í fangelsum. Ég tel og tölurnar sýna okkur það að endurkomutíðni þeirra sem afplána með samfélagsþjónustu er lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er því raunverulegt betrunarúrræði.

Við höfum öll lesið sögur fólks í tímaritum og dagblöðum. Sögur fólks sem hefur farið út af sporinu í lífinu og jafnvel lent í fangelsi. Það sem margar þessar sögur eiga sameiginlegt er að þetta eru yfirleitt sögur ungar karlmanna sem hafa mjög snemma á lífsleiðinni lent í ákveðnum aðstæðum, átt lítið bakland eða hreinlega tekið rangar ákvarðanir eða verið rangir menn á röngum stað á röngum tíma. Sögurnar eru alla vega en það sem þær eiga sameiginlegt er að mennirnir hafa farið ungir í fangelsi og þar hefur eyðileggingin oft og tíðum orðið meiri og möguleikar þeirra minni til þess að verða gildir og góðir samfélagsþegnar, sem við viljum flest vera.

Í stað þess að byggja þetta unga fólk okkar upp höfum við rifið það niður. Öll verkfæri sem við höfum til að snúa því við, og eins og ég segi er samfélagsþjónusta mjög gott verkfæri að mínu mati, þarf að nota og grípa fyrr inn í, þegar fólk á enn þá séns ef við megum orða það þannig, þótt við viljum auðvitað trúa því að allir eigi alltaf séns og það sé alltaf einhver von. En því yngra sem fólk er þegar við grípum inn í, þeim mun betra.

Ég fagna því við lestur á þessu nefndaráliti að sjá að þingmenn allra flokka eru á því. Það er greinilega breið sátt og út frá þeim umræðum sem hafa átt sér stað í þinginu fram að þessu er greinilegt að það er sátt á meðal allra þingmanna um að bæta okkur á þessu sviði og við erum tiltölulega sátt um leiðirnar.

Hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal hefur verið mjög afgerandi í máli sínu og skoðunum á þessu sviði og þarna er sá samhljómur sem við þurfum svo sannarlega til uppbyggingar. Ég treysti því að hæstv. ráðherra taki vel á þessu máli. Eins og fram hefur komið leggur nefndin til að málinu sé vísað til ríkisstjórnar og sé tekið samhliða frumvarpi til laga um fullnustu refsinga sem var rætt á undan.

Ég er nokkuð bjartsýn og jákvæð gagnvart því að við náum árangri. Við erum með fyrirmyndir eins og hv. þm. Líneik Anna kom inn á í máli sínu. Við erum með fyrirmyndir og ákveðna ferla til staðar annars staðar á Norðurlöndum sem við getum nýtt okkur og það eigum við að sjálfsögðu að gera.

Ég á von á áframhaldandi uppbyggilegri umræðu og góðri afgreiðslu hér á þingi sem og annars staðar þannig að við getum haldið áfram að byggja fólk upp í stað þess að eyðileggja það.