145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

neytendasamningar.

402. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um neytendasamninga.

Nefndin fjallaði um málið og fékk fulltrúa frá innanríkisráðuneytinu til þess að fara yfir málið, ástæðurnar fyrir því og hvernig það var unnið. Nefndin fékk einnig til sín fulltrúa frá Neytendastofu. Ein umsögn barst frá Neytendasamtökunum sem ekki höfðu tök á að koma fyrir nefndina.

Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB um réttindi neytenda verði innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 frá 28. september 2012. Markmið tilskipunarinnar er að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda og fjarsölusamninga, auk sölu- og þjónustusamninga, og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytanda áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytanda.

Þess skal getið að verði frumvarpið að lögum munu lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, falla brott, en með þeim voru eldri tilskipanir innleiddar í íslenskan rétt.

Helstu breytingar sem verða við innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB í íslensk lög eru annars vegar að strangari kröfur verða gerðar um form samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga. Hins vegar verður skýrar kveðið á um rétt neytanda til að falla frá samningi og verður meginreglan þar að lútandi 14 dagar. Verði frumvarpið að lögum fá neytendur því aukinn rétt til að falla frá samningi. Þess skal getið að þetta á við um atvinnustarfsemi og mun því ekki koma inn á sölu sem hefur oft verið í umræðunni hjá íþróttafélögum og öðrum félagasamtökum og öðru slíku nema hægt sé að tengja það og umfang þess við atvinnustarfsemi.

Í umsögnum um málið kom fram að ekki er tekið til ýmissa atriða í frumvarpinu og spurt af hverju ekki hafi verið gengið lengra í einstökum greinum. Því er til að svara að hér var höfð til hliðsjónar norsk löggjöf eða fyrirmynd frá Noregi, til dæmis um veitur. Þar gilda til dæmis sérlög. Þetta eru almenn lög og sérlögin munu ganga lengra. Var þá talið að það mundi duga eins og gert í norskum rétti. Önnur ákvæði voru valkvæð og var ekki talin þörf á þeim vegna aðstæðna hér á landi, að þær næðu ekki til þessara atriða og því ekki ástæða til að taka þau upp í íslenskan rétt.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Þess skal einnig getið að nefndin vill benda á að innanríkisráðherra hefur boðað að fram fari heildarendurskoðun á neytendalöggjöfinni í því skyni að einfalda reglur og gera þær gagnsærri.

Undir álitið skrifar allsherjar- og menntamálanefnd; hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Róbert Marshall, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Haraldur Einarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.