145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. velfn. (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég mæli í fjarveru framsögumanns fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá velferðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (andvanafæðing).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Maríu Jónsdóttur frá Miðstöð foreldra og barna, Guðnýju Björk Eydal og Helgu Sól Ólafsdóttur frá Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna og Rögnu K. Marinósdóttur frá Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum.

Umsagnir bárust frá Félagi um foreldrajafnrétti, Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Miðstöð foreldra og barna ehf., Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, umboðsmanni barna og Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum.

Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra sem eignast andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu til fæðingarorlofs eða -styrks verði lengdur í þrjá mánuði fyrir hvort foreldri um sig auk þriggja mánaða sem annað foreldrið geti tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Í greinargerð með frumvarpinu segir að því sé ætlað að leggja rétt foreldra sem eignast andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu að jöfnu við rétt foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu á meðan á fæðingarorlofi stendur, enda standi engin sanngirnisrök til grundvallar núverandi greinarmun.

Umsagnir og gestir nefndarinnar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins, þótt í nokkrum umsögnum hafi verið lýst þeirri skoðun að tilefni væri til endurskoðunar á öðrum þáttum laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Við meðferð málsins óskaði nefndin eftir áætlun frá Fæðingarorlofssjóði um kostnað sjóðsins við þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í áætlun sjóðsins kemur fram að fæðingarárið 2014 hafi sjóðurinn greitt foreldrum alls 9.655.726 kr. vegna 14 andvanafæðinga. Hefðu greiðslur miðast við það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir og að því gefnu að foreldrar hefðu fullnýtt rétt sinn hefði fjárhæð þeirra verið alls 29.722.460 kr. Miðað við þessar forsendur yrði árlegur kostnaðarauki sjóðsins við breytingarnar því 20.066.734 kr.

Að meginreglu til veita lög um fæðingar- og fæðingarorlof hvoru foreldri sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða -styrks í allt að þrjá mánuði og sameiginlegan rétt til þriggja mánaða vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, samanber 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laganna. Í 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna eru sérreglur um fæðingarorlof og -styrk vegna andvanafæðingar og fósturláts. Þar kemur fram að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi eða -styrk í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu en í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á sér stað.

Meginmarkmið almennu reglna 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laganna eru að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, samanber 2. gr. laganna. Markmið sérreglna 2. og 12. gr. er aftur á móti að gefa foreldrum svigrúm til að jafna sig eftir andvanafæðingu eða fósturlát, líkt og vikið er að í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi. Í ljósi þessara ólíku markmiða reglnanna telur nefndin ekki sjálfgefið að sami tímarammi eigi við í hvoru tilviki.

Nefndin fellst þó á að sá mikli munur sem nú getur verið á rétti foreldra til fæðingarorlofs eða -styrks eftir því hvort barn deyr fyrir eða eftir fæðingu sé ekki heppilegur. Fyrir nefndinni kom jafnframt fram að reynslan sýndi að núgildandi réttur til fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar veitti foreldrum ekki nægt svigrúm til að jafna sig. Nefndin telur í ljósi þessa rétt að rýmka rétt til fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar þannig að hvort foreldri eigi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar og leggur til breytingar á frumvarpinu því til samræmis.

Af þessari breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof leiðir að munur á rétti foreldra til fæðingarorlofs eða -styrks eftir því hvort barn deyr fyrir eða eftir fæðingu minnkar, en á móti eykst munur á réttinum fyrir og eftir 22 vikna meðgöngu. Þótt mikill réttindamunur við það tímamark sé heldur ekki alls kostar heppilegur helgast hann þó af því að lögin miða við að þar skilji milli fósturláts og andvanafæðingar. Þau skil er að rekja til laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof, nr. 51/1997. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kom fram að þau væru til samræmis við skilgreiningar sem notast væri við á Ríkisspítölum sem aftur byggðust á skilgreiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á fósturláti og andvanafæðingu.

Í 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði eða til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist á lífi. Orðunum „sem fæðist á lífi“ var bætt við ákvæðin með lögum nr. 90/2004, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 74/2008, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Skilyrði ákvæðanna um að barn fæðist á lífi var gagnrýnt fyrir nefndinni. Bent var á að erfitt væri að takast samtímis á við að ala upp eitt barn og að jarða og syrgja annað. Rýmkaður réttur til fæðingarorlofs eða -styrks vegna fjölburafæðingar væri því mikils virði þótt annað eða eitt barnanna fæddist andvana. Með hliðsjón af þessum athugasemdum leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu sem miðar að því að láta 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 21. gr. laganna einnig taka til andvanafæðinga.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Orðin „auk þriggja mánaða sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér“ í 1. og 2. gr. falli brott.

2. Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Við 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 21. gr. laganna bætist: eða fæðist andvana eftir 22 vikna meðgöngu.

Hv. þingmenn Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þeir sem skrifuðu undir nefndarálitið eru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir framsögumaður, Elsa Lára Arnardóttir, hv. þm. Framsóknarflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Páll Valur Björnsson, hv. þm. Bjartrar framtíðar, Silja Dögg Gunnarsdóttir, hv. þm. Framsóknarflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Vinstri grænna.

Mig langar að lokum að segja að það var mjög gaman að vinna að þessu máli í nefndinni. Það var einhugur um það og öllum fannst eðlilegt að breyta þessu. Ég fór af stað með þetta mál á sínum tíma vegna þess að mér var bent á það ósamræmi og þá ósanngirni sem var í lögunum. Mér var bæði ljúft og skylt að gera það og þess vegna er ég afskaplega glaður að við skulum vera að ræða málið í dag í 2. umr. og vonandi fæst málið samþykkt. Ég get ekki séð annað en að málið verði samþykkt vegna þess að það var algjör samhljómur í nefndinni um það. Það er gleðilegt.

Það er gleðilegt að við getum unnið af heilum hug að málum sem eru til þess að bæta samfélagið. Ég vildi óska að við gerðum meira af því. Lífið er þannig að við erum ekki alltaf sammála en í þessu máli vorum við það, sem er mjög ánægjulegt.

Ég hef þetta ekki lengra en lýsi yfir enn og aftur mikilli ánægju með störf nefndarinnar og ekki síst framsögumannsins Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, hv. þm. Sjálfstæðisflokksins. Hún vann þetta mál af mikilli elju og með glæsibrag, segi ég.