145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. velfn. (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira en ég finn mig knúinn til að koma upp og svara hv. þingmönnum báðum sem komu inn á mjög mikilvægt mál.

Í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Umsagnir og gestir nefndarinnar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins, þótt í nokkrum umsögnum hafi verið lýst þeirri skoðun að tilefni væri til endurskoðunar á öðrum þáttum laga um fæðingar- og foreldraorlof.“

Við ræddum einmitt það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi áðan og fleira. Að það væru margir punktar í fæðingarorlofslögunum sem þyrfti að breyta og að þótt lögin í heild sinni væru nokkuð góð þyrftum við að breyta ýmsum þáttum þess, til að mynda þeim sem hv. þingmaður nefndi og mörgum öðrum. Einnig því sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á um lenginguna og leikskólann í framhaldinu.

Þetta er mikið og merkilegt mál sem þarf að ræða í heild sinni. Velferðarnefnd var sammála um að það yrði gert á vegum nefndarinnar jafnvel á næstu mánuðum og vonandi á næstu missirum.

Ég vil segja hv. þingmönnum frá því að þetta er í deiglunni. Það var meðal annars rætt í nefndinni að við fyndum þá agnúa sem væru vissulega til staðar, eins og nefnt var áðan. Ég get tekið dæmi sem tengist mér. Dóttir mín eignaðist barn. Hún flutti frá Bandaríkjunum ásamt eiginmanni sínum tveimur og hálfum mánuði áður en barnið fæddist en af því að faðirinn var ekki fluttur heim þremur mánuðum áður en barnið fæddist fær faðirinn ekkert fæðingarorlof. Hún fær sex mánuði og er síðan kauplaus heima af því að hún fær ekki dagvistun.

Það eru alls kyns svona vandamál sem við þurfum að takast á við í sambandi við fæðingarorlof og fæðingarstyrki. Og við eigum að gera það á nákvæmlega þann hátt og við gerðum í velferðarnefnd núna, með samstöðu og í samvinnu. Það var mikil samstaða um málið og ákveðið að fara ekki í frekari breytingar heldur einblína á andvanafæðingar núna og síðan í framhaldinu, vonandi, að vinna samhent að því að breyta til batnaðar fyrir alla.

Eins og hv. þingmaður nefndi áðan er þetta samfélagslegt mál. Þetta er ekki aðeins mál foreldranna heldur samfélagsins alls, nærsamfélagsins. Það sem fékk mig til þess að fara af stað með þetta mál var að fólk sem ég tengist og þekki varð fyrir þessari sorg sem hafði ekki einungis áhrif á þau heldur allt nærsamfélagið. Áður fyrr voru svona hlutir þaggaðir niður og ég var meira að segja spurður að af eldri konu til hvers ég væri að breyta þessu, móðirin væri ekki að fara að sjá um neitt barn. Tilfinningalegi þátturinn vill oft gleymast. Áður fyrr var þetta þaggað niður og ekkert rætt og fólki bara sagt fara að vinna því að þá mundi það gleyma þessu. En þetta er miklu meira en það.

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur segja að ég gleðst yfir því að við skulum vera komin þetta langt með málið og að samstaða skuli hafa náðst um það. Menn velta fyrir sér kostnaði. Hann kemur fram hérna. Það voru 14 andvanafæðingar á síðasta ári. Þær eru mjög misjafnar. Þær eru kannski að meðaltali níu til tíu, þannig hefur það verið á síðustu 20 árum ef ég man rétt, þannig að það rokkar. En þetta er borgað af tryggingagjaldi. Fæðingarorlofssjóður er styrktur af tryggingagjaldinu. Foreldrar borga í hann og eiga því þennan rétt.

Hvað sem öðru líður er ég mjög ánægður með þetta. Ég þakka fyrir umræðuna og vona, hæstv. forseti, að málið verði samþykkt sem fyrst.