145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

aðgengismál fatlaðs fólks.

[15:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Barátta fatlaðs fólks fyrir mannréttindum er löng og ströng, en sigrarnir eru líka margir. Sem betur fer hefur fatlað fólk oft átt talsmenn og stuðningsfólk á Alþingi sem hefur fært íslenskan rétt framar í baráttunni fyrir samfélagi án aðgreiningar, fyrir samfélagi þar sem ekki er gerður greinarmunur á fólki eftir hreyfigetu, þar sem ekki er gerður greinarmunur á fólki eftir öðrum þeim hindrunum sem viðkomandi á við að stríða í daglegu lífi. Samfélagið leitast við að ryðja þessum hindrunum úr vegi til að allir megi njóta sín.

Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt ný mannvirkjalög þar sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir var framsögumaður frumvarpsins ef ég man það rétt og niðurstaða Alþingis var sú að herða heldur á kröfum gagnvart framkvæmdarvaldinu að því er varðar aðgengismál, gera kröfuna enn skýrari en nokkru sinni fyrr.

Nú eru til meðferðar á Alþingi lagafrumvörp um húsnæðismál. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur jafnframt kynnt tillögur að breytingum á byggingarreglugerð. Talsmenn fatlaðs fólks, hvort sem það er Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp eða aðrir þeir sem hafa þau mál með höndum, hafa áhyggjur af því að hér sé verið að stíga skref til baka.

Nú vill svo til að bæði málaflokkur húsnæðismála og málaflokkur fatlaðra heyrir undir hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur og því spyr ég hvort hún telji ekki rétt að stjórnvöld meti og greini sérstaklega þær breytingar sem þar eru lagðar til, bæði á byggingarreglugerð og viðkomandi löggjöf, með tilliti til neikvæðra áhrifa (Forseti hringir.) á aðgengi fatlaðs fólks og lýsi sig tilbúna til að grípa til viðeigandi og fullnægjandi aðgerða á sviði laga og reglugerða til að tryggja að við stígum ekki skref til baka í réttindabaráttu þessa fólks.