145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

aðgengismál fatlaðs fólks.

[15:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hvað þau mál varðar sem heyra undir mig sem eru nú þegar í meðferð Alþingis má nefna að það kemur sérstaklega fram í markmiðsgrein frumvarps um almennar íbúðir að þar sé hugað að fjármögnun húsnæðis fyrir fatlað fólk og geðfatlaða einstaklinga. Ég held að þar sé einmitt verið að reyna að finna leið til að tryggja að hér verði byggt húsnæði fyrir þá sem þurfa á því að halda. Það skal hins vegar alveg viðurkennast hér að ég hef líka lagt mikla áherslu á að leita leiða til að byggja vandað og hagkvæmt húsnæði og það hratt. Við sjáum að íbúðafjárfesting hér hefur verið í algjöru lágmarki frá því í kringum hrunið þegar hún fraus. Ég tel það ekki hafa verið gott skref að herða mjög kröfurnar almennt varðandi mannvirki og skipulagsmál á sama tíma og það var algjört frost á byggingarmarkaðnum. Það varðar þá almennt stöðuna þegar kemur að byggingu íbúðarhúsnæðis.

Mér skilst að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi átt í nánu samráði við hagsmunasamtök og aðra þá sem hafa skoðanir á byggingarreglugerðinni. Ég efast ekki um að menn muni fara yfir umsagnir frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks eins og frá öðrum sem málið snertir. Við höfum síðan líka, eins og kemur fram í okkar frumvörpum, hugað að því hvernig við getum tryggt öllu fólki húsnæði, og það sé gert af skynsemi og hagkvæmni.