145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

gæði heilbrigðisþjónustunnar.

[15:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alþekkt að áhrif af efnahagskreppu koma seint fram. Það gerist ekki bara á stundinni. Að sjálfsögðu tekur það tíma, sérstaklega innan mælikvarða á sviði heilbrigðismála, að greina og sjá breytingar á lýðfræði þjóða og heilsufari. Það er hins vegar alveg óumdeilt að efnahagsáfallið og í kjölfar þess reyndi verulega á alla innviði í íslenskri heilbrigðisþjónustu, á það hefur aldrei verið dregin nein dul, og óhjákvæmilegt að það hafi áhrif í þá veru sem hv. þingmaður var að lýsa í grófum dráttum. Það var til dæmis ákveðið á sínum tíma að ekki yrðu innleidd nein ný lyf, það var bara sett lok á það. Að sjálfsögðu kemur það fram með einhverjum hætti, en sem betur fer erum við að hefja innleiðingu á nýjum lyfjum í meira mæli en áður hefur verið gert. Með sama hætti lengist bið eftir heilbrigðisþjónustu þegar samdráttur verður. Ég nefni sem dæmi að á þjóðarsjúkrahúsinu er tekið út úr þeim rekstri á efnahagsáfallatímanum sem svarar 27–30 milljörðum kr. Að sjálfsögðu kemur það út þannig að biðlistar eftir þjónustu lengjast og svo þekkjum við verkföllin á síðasta ári.

Við erum núna sem betur fer að byrja að vinna niður þá biðlista sem hér eru gerðir að umtalsefni og sjáum þess stað í vinnu og afköstum inni á spítalanum. Við eigum eftir að kynna innan mjög skamms tíma hvernig við hyggjumst taka á þeim efnum á þessu ári út frá þeim fjárveitingum sem ætlaðar voru til þess máls.