145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

gæði heilbrigðisþjónustunnar.

[15:13]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki lofaði þetta svar nú góðu, að kenna kreppunni um í góðærinu hvernig komið er fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ef það er svo alþekkt sem ráðherrann vill vera láta að afleiðingar kreppu komi svo löngu síðar fram þá hefðu menn átt að gera ráðstafanir til að svo þyrfti ekki að verða í þessu tilfelli þar sem góðærið hefur verið hér á Íslandi um nokkurt skeið. Það var alveg ljóst þegar síðasta ríkisstjórn fór frá völdum að hún var búin að ná viðspyrnu og eftir það lá leiðin upp á við.

Einu lausnirnar sem hæstv. ráðherra hefur boðið upp á í opinberri umræðu að undanförnu virðast vera annars vegar niðurskurður og sparnaður og hins vegar frekari einkavæðing heilsugæslunnar. En framlög til heilsugæslunnar núna eru lægri en árið 2008. Það er auðvitað aumt upp á að horfa í sjálfu góðærinu.

Ég harma það að (Forseti hringir.) ráðherrann skuli ekki gefa nein svör, ekki hafa neina áætlun til að bjóða þinginu, ekkert nema einkavæðingaráform. (Forseti hringir.) Það er auðvitað lýsandi fyrir það hvers vegna 82.000 manns eru núna að skora á stjórnvöld að endurreisa íslenskt (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfi.