145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

kostnaðarþátttaka sjúklinga.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, því miður þekkjum við þessar sögur af greiðsluþátttöku sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi sem er í rauninni að allra mati mjög óæskilegt fyrirkomulag.

Þetta er gríðarlega flókið kerfi. Greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu er gríðarlega ógegnsæ og erfitt að átta sig á henni og af því leiðir að það frumvarp sem starfsfólk ráðuneytisins og fleiri stofnana hefur verið með í smíðum í eitt ár, sem er vissulega langur tími — starfsfólkið hefur unnið, eftir því sem ég best veit, eins vel og hratt að þessu máli og það hefur haft tök á.

Hér er um að ræða afar flókna frumvarpssmíð og flókið regluverk sem þarf að gera breytingar á og það er held ég í mínum huga meginástæðan fyrir því að hingað til hefur ekki verið ráðist til þessa kerfis með þeim hætti að (Forseti hringir.) stokka upp eins og ætlunin er að gera í því frumvarpi sem ég hyggst leggja fram fljótlega.