145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um þetta mál, frumvarp til laga um fullnustu refsinga. Fyrir liggja nokkuð margar breytingartillögur frá bæði meiri hluta og minni hluta. Mér finnst rétt að taka það fram í upphafi atkvæðagreiðslunnar að það er enn vinna í gangi í ráðuneytinu varðandi frekari breytingar sem lúta að samfélagsþjónustu og að útvíkka þau ákvæði sem í lögunum eru um samfélagsþjónustu og eins leggur allsherjar- og menntamálanefnd hér til að áþekk vinna fari í gang varðandi útvíkkun á ákvæðum um rafrænt eftirlit. Það er von okkar að frumvarp þar að lútandi geti litið dagsins ljós strax í haust þannig að mikilvægt er að þingmenn hafi það í huga við afgreiðslu þessa máls í dag. Ég mæli með því að þingið samþykki allar tillögur meiri hlutans og við munum síðan taka málið að nýju inn í nefnd á milli umræðna.