145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Komið hefur í ljós að vinna við þetta frumvarp er enn í gangi og það fer aftur í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég fagna því vegna þess að í ræðu í gær boðaði ég breytingartillögu er varðar útistandandi skuldir sekta og sakarkostnaðar. Starfsmenn Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar, sem er á Blönduósi og er hýst hjá sýslumanninum í Norðvesturkjördæmi, komu á fund fjárlaganefndar í síðustu viku og hvöttu mjög til þess að tekið yrði á þessu með lagasetningu í þessari umferð þegar frumvarpið yrði að lögum. Það er nefnilega svolítið alvarlegt að okkur tekst ekki að innheimta nema 8% almennra sekta hér á landi og 6% sakarkostnaðar á meðan okkur tekst að innheimta skattskuldir upp í 98%. Í árslok 2015 voru útistandandi skuldir hjá þessum aðilum meira en 8 milljarðar.

Ég mun skoða málið milli umræðna (Forseti hringir.) og treysti því að það verði ekki tekið út úr allsherjarnefnd fyrr en búið er að skoða það ákvæði sem ég lagði til í gær.