145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Meðal þess sem hefur áhrif á endurkomutíðni í íslensk fangelsi er öryggisnetið sem tekur við að lokinni afplánun. Fangar hafa margir hverjir ekki að neinu að hverfa þegar afplánun lýkur og eiga jafnvel hvergi höfði sínu að halla. Í nágrannalöndum okkar hafa sveitarfélög og frjáls félagasamtök unnið saman að því að mynda þetta öryggisnet og mjög æskilegt er að unnið verði að því hér á landi að leysa þennan vanda. Meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til að félagsþjónustu þess sveitarfélags sem fangi á lögheimili í verði gert viðvart tímanlega um áætluð lok afplánunar. Minni hlutinn tekur undir þessa breytingu og telur hana til bóta, en ítrekar að gera þurfi meira á vettvangi sveitarfélaga í þessu efni.