145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í yfirlýsingu Afstöðu, félags fanga, um þessa breytingartillögu meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Samvera fanga er mikilvæg og sérstaklega í ljósi þess að engin sálgæsla er í fangelsum landsins. Því getur samfangi og heimsóknir oft verið mikilvægt fyrir andlega heilsu fanga. Allsherjarnefnd hefur einnig ákveðið að taka ekki á ofbeldismálum eða einelti í garð fanga og þar með hefur nefndin gefið „grænt ljós“ á að slíkt viðgangist. Það er ljóst að breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar eru vanhugsaðar og mikil vonbrigði að ekki hafi tekist að vinna að frumvarpinu með betrun í huga, enda hefur nefndin ákveðið að hunsa umsagnir flestra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina og enn verður fangavist refsivist með engu innihaldi — og því miður mun endurkomutíðni þá halda áfram að hækka.“

Það er til lausn á þeim vanda að fangar fari inn í klefa annarra til að beita ofbeldi, það er að fangar geti læst klefum innan frá þannig að fangaverðir geti samt sem áður opnað klefana en ekki aðrir fangar. Það eru til lausnir við slíkum vandamálum sem krefjast þess ekki að föngum sé einfaldlega bannað að heimsækja hver annan. (BirgJ: Heyr, heyr.)