145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er komin þreyta í þingmannahópinn heyrist mér, þetta er orðið flókið, þetta er eins og í fjárlögunum, en þetta er umfangsmikið frumvarp og það þarf að vanda til verka. Mig langar aðeins að tala um þetta, þ.e. afskipti ríkisvaldsins af því hverjir geta verið talsmenn fanga. Við höfum almennt ekki afskipti af félagasamtökum eða einhverjum slíkum sem eru talsmenn fyrir tiltekinn hóp og það að ætla föngum að geta einungis kosið sér talsmenn úr röðum samfanga sinna sem eru undir hælnum á yfirvaldinu af því að þeir sitja jú inni finnst mér algjörlega ótækt. Ég skil ekki þessa íhlutun, að föngum sé það ekki heimilt sem hafa Afstöðu sem sinn vettvang til þess að ýta á mál sem geta m.a. snert eitthvað innan fangelsisveggjanna, ég skil ekki þá íhlutun að ætlast hreinlega til þess (Forseti hringir.) að það sé bara aðili innan fangelsisins sem geti gert það. Hugsið ykkur aðeins um. Þetta er algjörlega ótækt.