145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir að ég fagna því að þessu hafi verið breytt en það er mikilvægt að halda því til haga að fangi skal vera viðstaddur þegar leitað er í klefa. Ekki að jafnaði, heldur skal fangi vera viðstaddur. Það er bara hreinlega í samræmi við evrópsku fangelsisreglurnar.

Þetta sýnir einmitt hversu illa frumvarpið er úr garði gert þegar það kemur inn í þingið. Þetta var upprunalega í drögum en virðist hafa fallið út einhvers staðar á milli mjalta og messu. Ég er mjög fegin að einhver tók eftir því að þetta hafði fallið út og það er búið að laga það. Þess vegna vil ég brýna fyrir þinginu og hæstv. innanríkisráðherra að skipuð verði þverpólitísk þingmannanefnd eins og með útlendingalögin um þetta stóra, viðkvæma og mikilvæga málefni.