145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[17:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir framsögu með þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Ég vil líka þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að semja frumvarpið og flytja það í þinginu.

Eins og kom skýrt fram í framsöguræðunni er meginmarkmið frumvarpsins að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð og ég held að það sé alveg hárrétt, sem hv. þingmaður sagði, að við megum, vegna þess ástands sem er í heiminum, búast við auknum fjölda umsækjenda sem sækir um hæli á komandi árum. Ég vil taka undir að ég held að það sé alveg rétt að við þurfum að styrkja og hraða málsmeðferðinni.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort í hennar huga sé ekki örugglega verið að fjölga í nefndinni til þess einmitt að hægt sé að tryggja að málsmeðferðin verði góð og auðvitað hraðari en nú er en að það sé ekki tilgangurinn að hægt sé að skófla fólki hraðar úr landi en nú er, þ.e. að fjölgunin verði einungis til þess að hægt sé að keyra hælisumsóknirnar hraðar í gegn, hvort ekki þurfi að leggja áherslu á það sem varðar sanngjarna meðferð.