145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[17:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þetta mál sem ég held að sé að mörgu leyti afar brýnt. Það liggur á að efla starfsemi kærunefndar útlendingamála þar sem meðferðartíðnin hefur ekki verið viðunandi. Auk þess eru þau markmið mjög verðug að styðja við vandaða málsmeðferð og auka málshraða á fyrsta stjórnsýslustigi.

Breytt fyrirkomulag á því hvernig ríki teljast til öruggra upprunaríkja er einnig þáttur sem fjallað er um hér. Sú sem hér stendur hafði á sínum tíma efasemdir um að slíkur listi ætti yfirleitt rétt á sér en þær breytingar sem lagðar eru til á því fyrirkomulagi sem þegar er fyrir hendi eru til góðs. Að því leytinu til tel ég frumvarpið vera til bóta.

Mig langar þó í örstuttri ræðu minni að hvetja til þess að frumvarp það sem var afhent hæstv. innanríkisráðherra nú á haustþingi fari að líta dagsins ljós. Ég held að þetta verði að teljast óviðunandi þegar kominn er marsmánuður og um er að ræða þingmál sem er komið fram með svo óvenjulegum hætti, þ.e. þetta er aðferð við að útbúa frumvarp sem við höfum því miður ekki viðhaft í nægilega ríkum mæli í þinginu.

Í ljósi þess hversu viðkvæmur, víðtækur og mikilvægur þessi málaflokkur er var ákveðið að fara af stað með þverpólitíska þingmannanefnd til að gera nýtt frumvarp til útlendingalaga. Ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sitjum í þeirri þingmannanefnd, sem hefur lokið störfum, ásamt öðrum þingmönnum frá öllum flokkum sem eiga sæti á Alþingi.

Vinnan hefur í raun og veru verið ótrúlega samstillt og samhent. En ekki verður við það unað að nefndin skili af sér til ráðherra í nóvember og nú sé kominn mars og við sjáum málið ekki enn þá í þinginu.

Ég tel að við verðum að kalla eftir því að ráðherra komi með málið til þingsins eins og gert var ráð fyrir. Ella tel ég koma til álita, ef einhverjar þær hindranir eru fyrir hendi í ríkisstjórn eða í Stjórnarráðinu, að þingmannanefndin flytji málið sjálf. Málið var af okkar hendi fullbúið. Það var unnið í gríðarlega víðtæku samráði við mjög marga aðila, við ráðuneytin sem koma að málinu, við háskólaumhverfið, við hagsmunaaðila, við grasrótarhreyfingar og mannréttindasamtök sem láta sig þennan mikilvæga málaflokk varða. Það væri þinginu til verulegs sóma ef okkur tækist að ljúka við þetta mál.

Nú er kominn mars, eins og alþjóð er kunnugt, og þá fer náttúrlega fljótlega að sneyðast um tíma. Við erum að tala um þingmál sem er bæði viðamikið og varðar mikilvæga mannréttindaþætti og þyrfti þess vegna að fá viðhlítandi meðferð á Alþingi og nægan tíma.

Ég held að við sem höfum verið á Alþingi lengur en eitt kjörtímabil vitum að öll mál af þessari stærðargráðu og þyngdarflokki, ef ég má orða það sem svo, eiga greiðari leið á öllum þingum en kosningavetri. Ég held að í því ljósi sé okkur það mjög mikilvægt að koma málinu í gegnum þingið þinginu til sóma og einnig ráðherra málaflokksins og ríkisstjórninni, en síðast en ekki síst til þess að búa um þennan viðkvæma málaflokk með sómasamlegri hætti en við höfum gert hingað til.

Við verðum þess vör í fréttum nánast á hverjum degi, bæði fréttum af því sem alþjóðasamfélagið glímir við, sem Evrópa glímir við, sem Ísland glímir við en ekki síður í pólitískri umræðu, bæði alþjóðaumræðunni og umræðunni hér heima, að það er mikilvægt að ná utan um þennan málaflokk af varfærni og skynsemi þar sem við náum að stilla saman strengi sem byggja á mannúð, mannskilningi og virðingu fyrir fjölbreytileika íbúa jarðarinnar og skilningi á því að við hér á landi, eins og í öðrum siðuðum ríkjum, öxlum okkar hlut í því að takast á við verkefni samtímans sem munu væntanlega verða stærri eftir því sem árin líða inn í þessa krefjandi öld.

Það var fyrst og fremst framlag mitt til umræðunnar að hvetja til þess að málið færi að koma til umfjöllunar. Ég hef átt orðastað við hæstv. ráðherra í ræðustól Alþingis og hvatt til þess og verð ekki annars vör en að það sé bæði vilji og skilningur hæstv. ráðherra til þess að málið komi til þingsins. Ég hef ekki heyrt neinn hreyfa andmælum við þeim áformum. Ég hef ekki heyrt neinn efast um að það sé bæði rétt og tímabært að málið fái þinglega meðferð.

Í ljósi þess að ekki er ásættanlegt að sú mikla vinna sem þar var innt af hendi verði flysjuð niður í mörg lítil þingmál eða í eitt lítið þingmál og stóra málið verði síðan látið lenda í útideyfu sá ég mig knúna til að nefna stöðu málsins. Ég vonast til þess að við náum á þessu þingi að ljúka því stóra máli vegna þess að málaflokkurinn þarf sannarlega á því að halda.