145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[17:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er viðkvæmt mál. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Það er ekki óskastaða okkar sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd að flytja þetta mál, alla vega get ég talað fyrir mig og ég held að ég geti talað fyrir flesta nefndarmenn, vegna þess að við bundum auðvitað vonir við það eins og farið var inn á áðan að stóra frumvarpið frá þverpólitísku þingmannanefndinni yrði komið til þingsins. Það áttu allir von á að það yrði í það minnsta komið inn og við þyrftum ekki að standa í því að taka þessa þætti út úr því, því þeir eru hluti af því stóra og viðamikla starfi sem unnið var í málinu. Og þegar mál er svo langt komið eins og í því tilfelli, nánast tilbúið í nóvember, skyldi maður ætla að það væri einfalt fyrir ráðherra að klára það á tiltölulega skömmum tíma.

Ég held að það sé alveg ljóst að ef ráðherra kemur ekki með frumvarpið hér inn mjög fljótlega þá mun ég styðja þá hugmynd að þingmannanefndin flytji málið. Eins og hér hefur komið fram var samráðið gríðarlega mikið og víðtækt. Þetta er viðkvæmur og viðamikill málaflokkur. Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að ræða hann í þingsal og þetta er alls ekki gott í ljósi þess ástands sem mér finnst vera að koma upp í samfélaginu. Því miður finnst mér vera aukin rasismahugsun og ég tel að það eigi ekki að fara með svona mál inn í næstu kosningar. Við þurfum að afgreiða málið á þessu þingi og ná utan um þennan málaflokk. Það verður aldrei hægt að gera svo öllum líki, eins og sagt er stundum, því það eru auðvitað stór álitamál í þessu eins og hv. þingmaður á undan mér talaði um. Ég get tekið undir það, t.d. með listann yfir örugg ríki. Ég er afskaplega mótfallin þeirri hugsun. Við náðum ákveðnum árangri því að það átti að hafa hann í lögunum, hann átti að vera í ráðuneytinu, formlegur listi. Það verður ekki og það er í áttina, en ég er sammála því grundvallaratriði að svona listi á ekki að vera til.

Við erum auðvitað að fjalla um fólk, hælisleitendur eða flóttafólk, sem býr jafnvel við félagslega einangrun og er undir miklu andlegu álagi og í ljósi þess finnst mér ég hafa þurft að taka þátt í því að taka það skref sem hér er lagt til. Frumvarpið er ekki eins og ég hefði skrifað það, það er ekki eins og ég hefði viljað hafa það að öllu leyti, en þetta er ásættanlegt. Það þarf að fjölga í kærunefndinni, því miður fór það starf of hægt af stað, það þarf ekki að draga fjöður yfir það, það var svoleiðis, það voru erfiðleikar í upphafi starfs nefndarinnar. Það er kannski hluti af skýringunni, en það breytir því ekki að málum hefur fjölgað gríðarlega. Fjöldi þeirra margfaldast á milli ára. Það er auðvitað bara partur af heimsmyndinni sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna held ég að það sé í áttina að reyna að flýta málsmeðferð og veita auknar heimildir til formanns og varaformanns og ráða þá báða í fullt starf, annar er það nú þegar. Eitt af því sem skiptir held ég miklu máli er að fólk geti dreift ábyrgðinni og starfinu, og annar hvor þeirra þarf alltaf að sitja í þeim hóp sem vinnur með málin hvert fyrir sig. Ég held að þegar við verðum komin með sjö aðila, þetta verður auðvitað að vera oddatala, þá eigi þetta að geta farið af stað. Þess vegna þurfum við að láta málið ganga tiltölulega hratt hér í gegn. Það breytir því þó ekki að það væri ósköp gott að sjá til lands í stóra málinu og að ráðherra gæfi einhver önnur svör en að það sé bara alveg að koma á næstu dögum. Við erum búin að heyra það held ég nánast frá áramótum, þannig að það er eiginlega hætt að virka.

Frumvarpið er sex greinar og svo ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi er fjallað um fjölgunina í nefndinni. Svo er fjallað um breytingu á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þegar heilbrigðisástæðum er borið við. Okkur er væntanlega í fersku minni málin sem voru til afgreiðslu fyrir jólin og þingið afgreiddi, m.a. af því að nýtt frumvarp hefur ekki litið dagsins ljós og umgjörðin er ekki í lagi. Síðan er lagt til að réttaráhrifum verði ekki frestað í málum þar sem ríki eru talin örugg upprunaríki og aðstæður þannig að augljóst sé að ákvæði 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga eigi ekki við. Það er kannski þetta sem stendur í okkur mörgum. Ég tek undir með þingmanninum áðan að það var erfitt að sjá að Útlendingastofnun gæti afgreitt mál án þess að ræða við fólk. En heimild Útlendingastofnunar til þess að taka ákvörðun án þess að taka viðtöl við hælisleitanda er afnumin, bara svo það sé sagt, af því að mér fannst ég heyra í máli hv. þingmanns áðan að hann héldi að hægt væri að afgreiða mál án þess að taka viðtal. Það er ekki hægt. Mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli, það eiga allir og þurfa allir að koma í viðtal. Það er ekki hægt að ýta neinum út af sakramentinu þess vegna. Hins vegar verður þetta væntanlega til þess að fólk verður flokkað eftir hugmyndafræðinni um örugg og ekki örugg ríki. Síðan á málsmeðferðin að taka í það mesta 90 daga. Það er auðvitað allt annað en hefur blasað við okkur undanfarin ár og við höfum heyrt af málum til margra ára í kerfinu sem er algjörlega óásættanlegt. Ég held að það eitt og sér sé afar mikilvægt.

Það er líka vert að geta þess að þrátt fyrir að aðila sé vísað úr landi þar sem hann er ekki talinn uppfylla þau skilyrði sem sett eru um alþjóðlega vernd þá getur hann rekið mál sitt erlendis frá og hann hefur talsmann á Íslandi. Það eitt og sér finnst mér líka skipta máli.

Í 3. gr. er lögð til sú breyting að ef umsókn um hæli er synjað á fyrsta stjórnsýslustigi þegar umsækjandi kemur frá ríki af þessum blessaða lista og umsóknin hefur verið metin tilhæfulaus þá er lagt að umsækjanda að fara úr landi eftir að niðurstaða liggur fyrir á fyrsta stjórnsýslustigi. En það breytir því ekki að ekki er slegið af neinum kröfum varðandi málsmeðferð og að kærufresturinn er 15 dagar.

Í 5. gr. er talað um að stefnt sé að því að kærunefndin hafi sams konar heimildir og Útlendingastofnun til þess að beita flýtimeðferð og forgangsraða málum. Ákvæði 2. mgr. er fellt niður með vísan til þess að því hafi ekki verið beitt í framkvæmd og til þess að árétta að ákvarðanir á fyrsta stjórnsýslustigi verða ekki teknar án þess að viðtal sé tekið við umsækjanda og rannsóknarskyldu stjórnvalda sé fullnægt.

Ég held að við höfum reynt að nálgast þetta eins vel og við gátum miðað við aðstæður og grundvallarhugsun okkar allra sem höfum þurft að fást við þessi mál er mannúðarsjónarmið. Það er líka mikilvægt fyrir okkur í orðræðunni að gera greinarmun, mér finnst það nokkuð áberandi að fólk ruglar því saman, þegar sótt er um alþjóðlega vernd, hvað það er að vera hælisleitandi eða flóttamaður eða kvótaflóttamaður. Mér finnst það ekki vera öllum ljóst. Mér finnst gjarnan þegar ég á samtal við fólk að það setji þetta allt undir einn hatt. Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að upplýsa fólk um að þarna er greinarmunur.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég segi þá er það hálfgert neyðarbrauð að þurfa að leggja fram þetta frumvarp af hálfu nefndarinnar. Ég hvet ráðherra til þess og fer eiginlega fram á það að hún sýni á stóru spilin og láti þingið ekki og þá aðila sem í kerfinu starfa og auðvitað þá sem þurfa að ná tali af kerfinu og fá þjónustu þess, bíða enn um sinn, heldur gefi okkur ádrátt um að hún sé að koma með frumvarpið inn í þingið, ég mundi allra helst vilja að það væri bara á næstu dögum.