145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst í þeim tilgangi að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa auglýst eftir stóra frumvarpinu um útlendingamálin. Það hefur verið unnið á mjög merkilegan hátt sem er alveg til fyrirmyndar, í þverpólitískri samstöðu.

Frumvarpið liggur í ráðuneytinu og það er orðið svolítið undarlegt miðað við umfang málsins og miðað við samstöðuna sem ríkir um málið í þinginu að frumvarpið sé ekki komið. Ég vil því leggja á það þunga áherslu að frumvarpið komi hingað sem fyrst.

Það þótti mikilvægt að leggja fram þennan frumvarpsstubb um breytingar á lögum um útlendinga út af ákveðnum aðstæðum sem hafa komið upp varðandi málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi. Það var bagalegt þegar fjallað var um þetta frumvarp í allsherjar- og menntamálanefnd að hafa ekki heildarmyndina fyrir framan sig.

Sú heildarmynd er auðvitað í frumvarpsdrögunum. Maður þurfti oft að minna sig á að í þessu frumvarpi erum við aðeins að tala um afmarkaðan þátt málsins og leggja til ákveðnar lagfæringar á vissu ferli sem er einn þáttur í heildarmálinu, sem er það hvernig við ætlum að standa okkur vel í því að taka á móti fólki sem vill búa hérna. Í því mikilvæga verkefni felst einfaldlega að marka þjóðinni, þessari lokuðu þjóð, lokaða þjóðfélagi hingað til, einhverja skynsamlega og metnaðarfulla stefnu í innflytjendamálum.

Svo ég taki það algjörlega skýrt fram eigum við að opna landið verulega. Ég held að það sé það sem þurfi að gera á 21. öldinni okkur sjálfum til góðs og eins svo að við stöndum okkur í samfélagi þjóðanna.

Hvað er verið að gera í þessu frumvarpi? Ég á ekki í miklum vandræðum með að standa að frumvarpinu, sérstaklega eftir að ákveðnar umdeildari greinar voru sniðnar af því og þeim vísað í stóru meðferðina. Í fyrstu setningu greinargerðarinnar segir að meginmarkmið frumvarpsins sé að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Það er það eina sem er verið að gera í frumvarpinu.

Ég er þeirrar skoðunar að gott sé að hafa meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem besta og skilvirkasta og sem mannúðlegasta og gagnsæjasta. Það er ýmislegt í frumvarpinu sem er til bóta í því efni, eins og að fjölga einfaldlega í kærunefnd um úrskurði í þessum málum.

Ég held að öllum sé greiði gerður ef þessar umsóknir eru afgreiddar á sem skilvirkastan hátt og það er líka mikil framför að ekki megi taka ákvörðun í þessum málum án þess að taka viðtal við hælisleitandann til dæmis.

Það er augljóst að maður hefur fyrirvara við lista um örugg ríki. Ég spurði þá gesti sem komu fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd hvaða gildi þessi listi hefði. Ég er sammála því að ekki eigi að binda hann í reglugerð. En auðvitað á svona listi ekki að vera næg ástæða til að synja einstaklingi um alþjóðlega vernd hér á landi, vegna þess að hann kemur frá landi sem telst öruggt í einhverjum skilningi. Það hlýtur bara að vera einn faktor sem er hafður í huga.

Mér finnst skýrt í frumvarpinu að þetta er hugsað svona. Umsóknin um alþjóðlega vernd verður að vera tilhæfulaus að öðru leyti eða að það þyki sýnt að hún sé tilhæfulaus að öðru leyti.

Ég sé ekki fyrir mér að við tökum umsóknum um alþjóðlega vernd sem sjálfsögðum hlut og að sá sem sækir um alþjóðlega vernd fái hana einfaldlega. Við verðum að standa okkur í því að bjóða fólki sem sækir um alþjóðlega vernd, hæli, þá aðstoð sem við viljum veita. Fólk kemur oft úr miklum hörmungum frá stríðshrjáðum svæðum. Við viljum væntanleg geta staðið okkur í því sem samfélag að taka á móti fólki og koma fólki á lappir aftur eftir miklar hörmungar.

Það eru í einhverjum skilningi takmörkuð gæði sem við getum boðið upp á hvað þetta varðar. Ég er eindreginn hvatamaður þess að við gefum í og reynum að setja sem mesta fjármuni í þetta og reynum að standa okkur. Við eigum langt í land með að standast samanburð við aðrar þjóðir sem standa sig vel í þeim efnum. Við eigum að taka á móti fólki sem þarf þessa aðstoð og þarf að koma undir sig fótunum í nýju og öruggara samfélagi.

En þegar við segjum að sumum sé hafnað um þetta vegna þess að umsókn um vernd er tilhæfulaus, vegna þess að af einhverjum ástæðum þyki sýnt að manneskjan hafi ekki verið hrjáð á neinn þann hátt að hún þurfi endilega aðstoð samfélagsins, þá finnst mér mikilvægt að þeirri manneskju sé bent á aðrar leiðir til þess að gerast virkur þátttakandi í samfélaginu.

Þá vantar einmitt hitt frumvarpið til hliðsjónar. Í því frumvarpi er verið að gera þær leiðir allar miklu opnari, að mér skilst, og miklu skilvirkari, að fólk geti komið hingað og fengið dvalarleyfi og atvinnuleyfi, sem er nú um stundir mjög flókið og setur fólki óþægilegar skorður.

Ég veit það fyrir víst að í því frumvarpi sem er væntanlegt í þingið og kemur sem fyrst er verið að gera þessar leiðir miklu opnari.

Ég sé þetta virka ágætlega saman, ef við erum með vandaða og skilvirka málsmeðferð þegar einhver sækir um hæli hér og alþjóðlega vernd og aðrar leiðir eru á sama tíma opnaðar og fólki beint í þá kanala ef það uppfyllir ekki skilyrði um alþjóðlega vernd.

Ég sagði áðan að í þessu frumvarpi er ekkert verið að segja hversu mörgum hælisleitendum eigi að taka á móti eða hversu opið landið eigi að vera í þeim efnum. Það er aðeins kveðið á um réttláta og sanngjarna málsmeðferð. Ég styð það.

En þegar kemur að þeirri spurningu hvað við eigum að gera mikið tel ég að við eigum að gefa verulega í og reyna að standa okkur í þessu. Við eigum að miða við önnur norræn ríki þegar kemur að þessu. Ég held hins vegar að við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, þetta samfélag, að við höfum verið mjög lokuð. Það hefur verið mjög erfitt flytja til Íslands.

Þetta hefur breyst eftir að við gerðumst þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu. En það eru innlendar hindranir gagnvart öllum röddum um að opna landið betur. Það voru nýlega stofnaðir pólitískir flokkar sem hafa það að markmiði sínu að reyna að koma í veg fyrir að landið opnist frekar. Þau sjónarmið hafa heyrst í þingsal að við eigum afdráttarlaust að vísa fólki frá.

Þetta er ekkert sem heyrist í fyrsta skipti hér og nú. Þetta viðhorf hefur að mörgu leyti einkennt stefnu Íslendinga í útlendingamálum um áratuga skeið. Það er aðeins nýverið að við sjáum breytingar í þeim efnum.

Ég held að það verkefni að sannfæra þjóðina um að opna landið betur, sem mér finnst samt ríkja glettilega mikill einhugur um í þingsal, sé erfiðara en fólk áttar sig á. Ég held að þess vegna sé mikilvægt að fá stóra útlendingafrumvarpið hingað inn sem fyrst, í góðum tíma fyrir næstu kosningar, afgreiða það fyrir kosningar og eiga þessa samræðu hér inni og við þjóðina.

Svo held ég að Ísland þurfi að marka sér stefnu í innflytjendamálum eins og mörg þjóðfélög gera. Hvað teljum við skynsamlegt að margir búi hérna? Ég held að við horfum upp á tíðaranda sem er öðruvísi en sá sem ríkti á 20. öldinni. Ég held að á 21. öldinni verði miklu meiri fólksflutningar og miklu meiri krafa um að fólk geti búið þar sem það kýs að búa. Við þurfum að finna leiðir til þess að gera gott úr því, nýta það, Íslendingum til hagsbóta og framfara.

Ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að við tökum uppbyggileg framfaraskref í þeim málum í heild.