145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[18:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í breytingartillögu er sagt:

„Félaginu skal slitið þegar það hefur lokið störfum sínum.“

Væntanlega þýðir það að það hefur þá gengið frá sölu þessara eigna.

Ástæða þess að ég hef áhyggjur af þessu er sú að ég tel að ef við metum það sem svo, setjum sem svo, nú bara hugsa ég upphátt í ræðustól, að við setjum þessu félagi einhvern tíma, 2018 bara út í bláinn, setjum sem svo að við séum ánægð eftir að hafa fengið ársfjórðungslegar skýrslur, sem er mjög til bóta eins og ég sagði, um framvindu mála hjá félaginu, ætti að vera hægur vandi fyrir þann sem gegnir embætti fjármálaráðherra á þessum tíma að leita eftir samþykki þingsins við að halda þessu félagi áfram til tiltekins tíma. Við viljum auðvitað ekki gera það að verkum sem hv. þingmaður nefndi, og er alveg réttmæt ábending og athugasemd, að eignirnar fari á undirverði, enda kemur mjög skýrt fram hvað átt er við með hagkvæmni í markmiðsgrein frumvarpsins, þ.e. að eignir séu seldar á sem bestu verði.

Ef ákvörðunin um að framlengja starfstíma félagsins liggur eingöngu hjá framkvæmdarvaldinu held ég líka að þrýstingur á að ljúka verkinu sé minni, þ.e. ef ekki þarf að fara í gegnum Alþingi. Ég velti því upp hvort þetta bæti aðstöðu þingsins til eftirlits með félaginu. Það er hugsunin en ég óska fyrst og fremst eftir því að þetta verði rætt aðeins betur í nefndinni.