145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[18:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er óþarfi að lengja umræðuna mikið. Ég er fulltrúi Samfylkingarinnar í þessari nefnd og þeir sem skoða nefndarálitið og hafa hlustað á ræður hér hafa kannski tekið eftir því að ég skrifa ekki undir nefndarálitið. Það þýðir ekki að ég leggi það til við þingflokk minn að leggjast gegn frumvarpinu, heldur munum við sitja hjá við afgreiðslu þess.

Ég tek undir með þeim ræðumönnum sem talað hafa á undan mér og tek undir mörg þau sjónarmið sem fram komu í máli þeirra og sérstaklega það að málið hefur tekið gífurlegum framförum frá því að það kom fyrst í þingið þegar því var ætlað að vera einkahlutafélag í Seðlabankanum. Eins og fram kom í ræðu hér á undan kom í ljós að Seðlabankinn kærði sig ekkert um þetta verkefni og taldi sig ekki til þess bæran. Voru þar meðal annars höfð til hliðsjónar bréf umboðsmanns Alþingis frá því í haust þar sem hann gerði athugasemdir við eignaumsýsluna, eignasýslu Seðlabanka Íslands, sem er þó annars eðlis, eins og jafnframt hefur komið fram, vegna þess að þar höndlar Seðlabankinn með eigur sem runnu inn í Seðlabankann. Þarna var honum ætlað að höndla með eigur ríkisins. Það stakk mig í augun af hverju það heyrði þá ekki beint undir fjármálaráðherra. Því var öllu breytt og hefur málið breyst mjög til batnaðar. Ég legg áherslu á að ábyrgðarkeðjan á að vera alveg klár, þ.e. að hin pólitíska ábyrgð á verkum þessa fyrirtækis, þó að það sé einkahlutafélag, er hjá fjármálaráðherra. Ég tel að það skipti mjög miklu máli.

Það skiptir einnig mjög miklu máli að í gjörðum þessa hlutafélags skyldu stjórnsýslulög gilda og að farið skyldi eftir þeim reglum sem gilda um það þegar ríkiseignir eru seldar. Það allt skiptir mjög miklu máli. Gagnsæið skiptir miklu máli. Eftirlitið, sem okkur var sagt að ætti að vera þarna, skiptir miklu máli.

Á hinn bóginn er þetta einkahlutafélag. Ég hefði talið að þarna ætti að vera um ríkisstofnun að ræða eða opinbert hlutafélag. Mönnum þótti það of þungt í vöfum og sögðu: Þetta félag á bara að starfa í stuttan tíma og það er miklu auðveldara að koma upp einkahlutafélagi. Svo á að leggja það af og fara hinar opinberu leiðir sem við höfum hugsanlega átt kost á, þ.e. annars vegar ríkisstofnun og hins vegar opinbert hlutafélag.

Það er aðallega þess vegna sem ég hef ákveðið að mæla með því við þingflokk minn að sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps og því taldi ég ekki rétt að vera á nefndarálitinu. En ég segi samt sem áður og vona að það sé skýrt og greinilegt að málið hefur tekið mjög miklum framförum í starfi nefndarinnar og formaður nefndarinnar á mikinn heiður skilinn fyrir það hvernig hann hefur unnið að þessu máli. Samt sem áður er málið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og við munum sitja hjá. Þess vegna skrifaði ég ekki undir nefndarálitið.