145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

180. mál
[18:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég ásamt mörgum fleiri hv. þingmönnum er meðflutningsmaður á tillögunni.

Ég held að það sé varla þarft en þó samt betra að taka fram að ég styð þetta mál svo sannarlega heils hugar.

Ég lít svo á að með þessari þingsályktunartillögu brýnum við hv. þingmenn sem að henni stöndum stjórnvöld í þeirri vinnu að klára þær breytingar sem ráðast þarf á í íslensku lagaumhverfi til þess að hægt sé að fullgilda þennan samning.

Nú er það svo, líkt og kom fram í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers, að Ísland skrifaði undir þennan samning í mars árið 2007. Það er því orðið býsna langt síðan að Ísland skuldbatt sig til þess að fylgja samningnum og bagalegt að þeirri vinnu sem nauðsynleg er til að hægt sé að fullgilda hana sé ekki enn þá lokið.

Það er þó svo að það hefur umtalsverð vinna farið fram, bæði á síðasta kjörtímabili í því að kortleggja hvaða lög það eru sem þarf að breyta og á þessu kjörtímabili hefur sú vinna haldið áfram. En þetta gengur bara, frú forseti, allt of hægt. Það er ekki hægt annað en að hugsa að þetta sé ef til vill ekki mál sem er sett í neinn sérstakan forgang, vegna þess að það eru liðin níu ár síðan við skrifuðum undir samninginn.

Það var einhvern tíma fyrir jól sem hæstv. innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi sem tengist því að hægt sé að fullgilda þennan samning og það fór sem betur fer svo að Alþingi samþykkti það frumvarp. En það gekk því miður allt of skammt, því að þar var fyrst og fremst um að ræða bandorm með orðalagsbreytingum þar sem orðinu „fatlaður“ í öllum orðmyndum var skipt út fyrir hugtakið „fatlað fólk“. Þar var hins vegar ekki að finna neinar efnislegar breytingar.

Ég átta mig á því að vitaskuld er nauðsynlegt að fara í slíkar breytingar en það gengur ekki að þetta sé það eina sem áfram þokist, að í rauninni sé einungis tekið á því sem er auðveldast að gera og skiptir í sjálfu sér ekki neinu máli þannig séð fyrir stöðu fatlaðs fólks. Auðvitað skiptir alltaf máli hvaða orð við notum þegar við tölum um annað fólk en það breytir ekki hinu pólitíska inntaki.

Mig langar í því samhengi að minna á að það er alveg gríðarlega mikilvægt, af því að þessi vinna er í gangi og við erum skuldbundin vegna þess að við erum aðilar að samningnum þó svo að við höfum ekki fullgilt hann, að við pössum upp á það og ráðuneytin passi upp á það að öll þau lög sem sett eru á Alþingi séu í takt við samninginn. Það gengur alls ekki að annars vegar sé verið að setja ný lög sem eru ekki í takt við samninginn og hins vegar verið að vinna að því að breyta lögum til þess að uppfylla hann.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að allir ráðherrar og öll ráðuneyti passi sig á að fara yfir öll frumvörp sem frá þeim koma með tilliti til samningsins, þannig að við getum komið í veg fyrir að sett verði ný lög sem eru ekki í samræmi við hann.

Þá tel ég einnig mjög mikilvægt að allir hv. þingmenn tileinki sér þá sýn sem hv. þm. Kristján L. Möller lýsti svo ágætlega í framsöguræðu sinni, að allir hv. þingmenn tileinki sér þá félagslegu sýn sem sett er fram í samningnum. Það mundi svo sannarlega auðvelda vinnuna til þess að allt sem við gerum hérna sé í takt við samninginn.

Ég sé að það saxast hratt á tímann og langar því að taka eitt dæmi um þá hugsun sem við hv. þingmenn verðum að tileinka okkur.

Nú er það þannig að 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fjallar um aðgengi. Þar kemur fram að ráðstafanir skuli miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að efnislegu umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptum. Mig langar að aðgerðarbinda hvað þetta þýðir. Til þess að greinin virki verðum við að hafa hana í huga þegar sett eru lög til að mynda um húsbyggingar. Mig langar að nefna sérstaklega byggingarreglugerðina í því samhengi. Við verðum að hugsa reglugerðir eins og byggingarreglugerð í takt við þennan samning og þessa 9. gr.

Annað dæmi sem mig langar að nefna sem við þurfum að spegla við 9. gr. er samgönguáætlun. Aðgengilegar almenningssamgöngur. Styrkir til fatlaðra vegna bifreiðakaupa mundu líka falla undir það sem lýtur að samgöngum, því að það er ekki hægt að hugsa um líf fatlaðs fólks í litlum og lokuðum mengjum. Það er ekki nóg að hafa aðgengi að heimili sínu eða staðnum sem maður býr á eða hafa aðgengilegan vinnustað ef leiðin þarna á milli er óaðgengileg. Við verðum að hugsa þetta sem heild.

Í þriðja lagi langar mig að nefna aðgengi að upplýsingum. Þar undir fellur til að mynda textun á efni eða jafnvel að setja það yfir á blindraletur eða að setja fram upplýsingar á auðskildu máli. Mig langar í því samhengi að nefna einstaklega vel heppnað dæmi um slíkt sem er bæklingur um ofbeldi gegn fötluðum konum, sem settur er fram á auðskildu máli. Það gagnast öllum vegna þess að hér er með einkar aðgengilegum hætti fyrir alla hægt að nálgast aðalatriðin þegar kemur að því sem helst skiptir máli um ofbeldi gegn fötluðum konum.

Að lokum langar mig að árétta að í rauninni er í þessum samningi, eins mikilvægur og hann er, ekki verið að setja fram nein ný réttindi fyrir fatlað fólk. Það er einungis verið að árétta það sem á nú þegar að vera tryggt samkvæmt almennum lögum en er ekki svo vegna þess að lögin eins og þau eru núna mismuna fötluðu fólki þar sem ekki er tekið tillit til sérstakra þarfa þeirra.

Að öllu því sögðu vonast ég til þess að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt fljótt og vel og að hún verði (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn hvatning til þess að drífa þetta af og setja púður í að klára málin svo að við getum fullgilt þennan samning. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)