145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

180. mál
[18:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á að þakka ræðumanni fyrir hennar góðu ræðu og nota tækifærið í andsvari til þess að lýsa fullum stuðningi við þessa tillögu. Píratar standa einhuga á bak við tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það hefur oft vakið furðu mína þegar er um svona samninga og fullgildingar að ræða hvað það tekur óralangan tíma að gera þá að lögum og byrja að vinna í því sem þeir innihalda. Hv. þingmaðurinn fór mjög ítarlega yfir hversu mikilvægt þetta er fyrir einn af okkar allra viðkvæmustu hópum í samfélaginu.

Mig langaði í ljósi þess að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sé möguleiki á að við náum þessu í gegn núna. Ég vona sannarlega að svo sé. Ég sé ekki neinn þingmann frá meiri hlutanum á þessari tillögu og það hryggir mig. En ég vona, alveg eins og við náðum í gegn fullgildingu á OPCAT, að okkur takist núna að tryggja þessu máli framgang því að ég mundi eiginlega segja að það væri mikill hnjóður á samfélagi okkar ef við gerum það ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sé möguleiki að ná þessu máli hér í gegn á vordögum.