145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

180. mál
[18:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir spurninguna.

Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki alveg á takteinum myndina eða töfluna sem finna má á heimasíðu innanríkisráðuneytisins þar sem er búið að haka við hvaða lög það eru sem eru í lagi og hvar þurfi að gera breytingar. Ég hef þessa mynd því miður ekki í kollinum núna. Ég hygg að það sé talsverð vinna eftir. En ég er alveg sannfærð um að ef þetta mál væri sett í einhvern forgang þá væri að sjálfsögðu hægt að klára þær breytingar á lögum sem nauðsynlegar eru til þess að fullgilda samninginn. Það er búið að kortleggja hvaða lög það eru sem þarf að breyta. Það þarf bara að fara í breytingarvinnuna.

Ég vona svo sannarlega eins og ég sagði í ræðu minni áðan að þessi þingsályktunartillaga verði hæstv. ríkisstjórn — ég veit ekki, frú forseti, hvort það má taka svo til orða að segja spark í rassinn, en að hún verði henni hvatning til þess að klára þetta mál.

Mig langar að ítreka það sem ég sagði áðan að ég hef áhyggjur af því að ekki sé verið að lesa lagafrumvörp núna með tilliti til samningsins og því geti verið að bætast við halann af málum sem uppfylla hann ekki. Það eru náttúrlega algjörlega ólíðandi vinnubrögð.

En mér finnst að við sem þingmenn eigum líka að hafa þann metnað að vísa þessu ekki bara yfir á ráðherra og ráðuneytin heldur passa okkur sjálf þegar við (Forseti hringir.) leggjum fram mál og máta þau við þennan samning.