145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

180. mál
[18:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir mjög innihaldsríkt svar. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni.

Ef maður lítur yfir tillöguna þá sér maður að mjög víða er gildandi löggjöf í samræmi við ákvæði samningsins og því ætti ekki að vera miklum vandkvæðum háð að fullgilda samninginn.

Það sem er oft viðvarandi í öllu sem tengist mismunandi hagsmunahópum er að ef það er ekki nægilegt aðhald með framkvæmdarvaldinu þá þarf að hafa fyrir því að tryggja að grundvallarmannréttindi séu grunnstefið í stjórnsýslunni. Það er mjög algengt.

Ég vona svo sannarlega að við förum að finna einhverjar nútímalegri leiðir með eftirliti með stjórnsýslu og framkvæmd allra þessara ólíku þátta sem lúta að góðum stjórnsýsluháttum til þess að þrýsta á, án þess að þurfa alltaf að taka einhverja slagi um hluti sem eru svo sjálfsagðir.

Ég vona að þegar málið fer til nefndar verði það afgreitt hratt og vel, það þekkja allir þetta mál ágætlega, og síðan munum við sjá það verða að veruleika með hinu víðfræga vorslengi.

Ég er pínulítið leið yfir því að mitt nafn er ekki hérna á málinu, maður nær ekki alltaf að svara öllum beiðnum um að vera með, en ég er algjörlega heils hugar og hundrað prósent með þessu máli og ég veit að mjög margir þingmenn meiri hlutans eru á sama máli. Það er mín tilfinning.