145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

180. mál
[19:03]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu enda er að mati mínu ekki þörf á mikilli umræðu hér við fyrri umræðu og flutning málsins. Ég ber mikla virðingu fyrir því og segi að það verður verkefni okkar að fylgja málinu eftir í velferðarnefnd við vinnu þar og svo að reyna að koma málinu til síðari umræðu og atkvæðagreiðslu áður en þing fer heim í lok maí.

Ég vil bara geta þess sem ég gerði ekki í byrjun og misfórst hjá mér að ásamt mér eru flutningsmenn að tillögunni hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé, Helgi Hrafn Gunnarsson, Árni Páll Árnason, Steinunn Þóra Árnadóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Helgi Hjörvar.

Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að það voru auðvitað margir fleiri þingmenn sem vildu vera á tillögunni en þessu var svona raðað upp af þeim sem hér stendur í byrjun. En ég veit um víðtækan stuðning hjá þingmönnum hvað þetta varðar.

Eins og ég sagði áðan er það okkur til vansa að ekki skuli vera búið að staðfesta samninginn. Af 157 aðilum að samningnum þá segir hér í skjalinu, þegar það var skrifað, að 151 hafi fullgilt samninginn. Ég held hins vegar að þetta sé ekki rétt, að þeir séu orðnir fleiri þannig að það eru kannski örfáir eftir og það er til vansa fyrir okkur Íslendinga að vera þar.

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu frá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur og Birgittu Jónsdóttur í andsvari þá held ég að við getum öll verið sammála um það að ljúka fyrri umræðu með þessum orðum sem eru síðustu línurnar í þingsályktunartillögunni sjálfri:

„Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er tímabært að íslensk stjórnvöld aflétti fyrirvaranum og stígi skrefið til skuldbindingargildis þessa mikilvæga samnings til fulls.“

Það skulu vera mín lokaorð hér, en ég hef ekki sagt mitt síðasta til að fá málið samþykkt.