145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

málefni aldraðra.

352. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frumvarpi um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Það er í raun og veru bara tvær greinar. Fyrri greinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Heimilismaður sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða skal eiga kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn þar.“

2. gr. gerir ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2018 til aðlögunar.

Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja hjónum og sambúðarfólki rétt til að vera áfram samvistum þótt annað þeirra þurfi að vera tímabundið eða til langframa á stofnun fyrir aldraða vegna heilsubrests eða færni. Þessi réttur er ekki tryggður nú, svo ótrúlegt sem það kann að virðast, þannig að mörg dæmi eru um að fólk neyðist til þess að slíta samvistum gegn vilja sínum þegar það er komið á þessi efri og viðkvæmu ár. Aðskilnaðurinn er átakanlegur og getur reynst fólki erfiður og þungbær, en ekki síður aðstandendum þeirra og fjölskyldu. Það hlýtur að vera hagsmunamál aldraðra að tryggja þennan rétt til þess að vera áfram saman, auk þess sem slík breyting mundi ríma algjörlega við þau sjónarmið sem vex ásmegin í samfélaginu sem snúast um að efla sjálfstæðis- og sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að gagnrýni á gildandi tilhögun hafi orðið til þess að vorið 2013 hafi þáverandi hæstv. velferðarráðherra og forstjóri Hrafnistu undirritað samning um tilraunaverkefni til tveggja ára sem fól í sér að hjón gætu búið saman á hjúkrunarheimili á Hrafnistu þótt einungis annað þeirra þyrfti þess af heilsufarsástæðum. Í lokaskýrslu verkefnisins 2015 segir að það sé samdóma álit allra sem komu að þessu verkefninu að það hafi ekki gengið sem skyldi. Þar var lagt til að ekki yrði haldið áfram með þeim hætti sem stofnað var til. Þess í stað yrði maka gefinn kostur á nábýli við heimilismann á hjúkrunarheimili og tíðum heimsóknum, en sá kostur hefur auðvitað verið í boði um nokkurt skeið. Það verður að gera þann fyrirvara við þessar ályktanir að þær byggðust bara á sambúð tveggja heimilismanna og maka þeirra, annars vegar í þrjár vikur og hins vegar í 11 mánuði, þannig að ekki er hægt að halda því fram að hópurinn hafi verið stór sem ályktunin byggði á. Skýrslan lýsir bara sjónarmiðum starfsmanna og stjórnenda á Hrafnistu en ekki viðhorfum heimilismannanna sjálfra, sem er líka umhugsunarefni.

Við gerð þessa frumvarps var kannaður réttur para til sambúðar á stofnunum fyrir aldraða í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Slíkur réttur er við lýði í þessum löndum þó að hann sé mismunandi tryggður. Í Danmörku er réttur eldri borgara til sambúðar tryggður í lögum um félagslegt íbúðarhúsnæði og í lögum um félagsþjónustu.

Í Noregi annast sveitarfélög þjónustu við aldraða samkvæmt lögum um heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar er sambúðarrétturinn ekki lögfestur, en sum sveitarfélög, þar á meðal Ósló, hafa skuldbundið sig til að gefa hjónum og sambúðarfólki kost á að búa saman á hjúkrunarheimilum. Þar með hefur verið komið til móts við þessar kröfur.

Með breytingu á lögum um félagsþjónustu í Svíþjóð frá 2012 var eldri borgurum sem búa á hjúkrunarheimilum eða í öðrum sérstökum búsetuúrræðum fyrir aldraða, veittur réttur til sambúðar við maka þar. Þeirri lagabreytingu var meðal annars ætlað að auka sjálfsákvörðunarrétt og búsetuval aldraðra. Sú löggjöf sem verið er að leggja til með frumvarpinu er í þeim anda.

Rétturinn í þessum löndum byggir á þeirri grunnforsendu að þar með aukist bæði réttindi og lífsgæði aldraðra, sem er markmið sem við hljótum öll að deila og fyrir því eru færð ýmis rök. Þessi rök hljóta þar með að eiga við hér eins og þar.

Ekki liggja fyrir upplýsingar nú þegar frumvarpið er lagt fram um fjölda fólks hérlendis sem ætla má að mundi nýta sér þennan rétt, en úttekt í Svíþjóð leiddi í ljós að fáir sóttu um sambúð á grundvelli þessarar breytingar á lögunum til að byrja með. Fólkið sem valdi þann kost hafði yfirleitt verið lengi samvistum, gjarnan 60–70 ár, en það ríkti almennt ánægja með það meðal heimilismanna og stjórnenda á stofnununum að það væri valkostur. Það var talið bæta líðan hinna öldruðu og ekki síst efla öryggistilfinningu þeirra. Helstu ókostirnir voru taldir þeir að dæmi væru um að heilbrigðir einstaklingar teldu sér skylt að fylgja mökum á sjúkrastofnanir þótt þeir hefðu ekki löngun til þess og að það mundi auka álag á stofnanirnar að makar dveldust þar áfram eftir fráfall þess sem þurfti að dveljast þar af heilsufarsástæðum. Það er auðvitað sjónarmið sem skoða þarf og mun hv. velferðarnefnd væntanlega taka það til rýningar.

Það er ýmislegt fleira sem þarf að skoða áður en slíkur réttur yrði veittur að lögum eins og hér er lagt til. Þess vegna er ætlaður aðlögunartími í frumvarpinu, eins og það er lagt fram, til 1. janúar 2018, til þess að læra af reynslu grannþjóðanna, sem sums staðar er ekki löng og auðvitað, sem er mikilvægast af öllu, til þess að kanna hug eldri borgara til sambúðar á dvalar- og hjúkrunarheimilum, þ.e. þeirra sem þjónustunnar mundu njóta, þannig að unnt sé að gera áætlanir um nauðsynlegar breytingar. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar heimilanna geti sótt fjárstyrk í Framkvæmdasjóð aldraðra til þeirra breytinga sem gera þyrfti samkvæmt núgildandi lögum um málefni aldraðra. Séð er fyrir þeim kostnaðarhluta í núgildandi lögum eins langt og það allt saman nær.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að mæla fyrir þessu frumvarpi og ég vænti þess að það hljóti efnislega og jákvæða umfjöllun í hv. velferðarnefnd.