145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

upplýsingar um eignir í skattaskjólum, opinber innkaup.

[15:26]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þessi svör. Ég held að þingið standi með hæstv. ráðherra í þessum aðgerðum. Ég hvet hann til dáða, þetta er gott mál.

Mig langar aðeins að spyrja út í aðgerðir gegn kennitöluflakki. Ég spurðist fyrir um það hvaða aðgerðir farið hefði verið í frá árinu 2013, þegar setja átti á fót samstarfsvettvang og grípa til ráða hvað þetta varðar.

Nú finnst mér að hæstv. fjármálaráðherra hljóti að hafa skoðanir á því alvarlega meini sem kennitöluflakk er. Ég verð að segja eins og er að mér finnst stjórnvöld vera með linkind í þessum málum. Það að ætla að bæta skil á ársreikningum — gott og vel, en það bjargar ekki neinu. Það er ágætisaðgerð en ef það er það eina sem stjórnvöld eru að gera þá fallast manni hendur.

Ég vil fá svör frá hæstv. ráðherra um hvað ríkisstjórnin er að gera til að sporna gegn kennitöluflakki.