145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

upplýsingar um eignir í skattaskjólum, opinber innkaup.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þekki engan þingmann, og reyndar engan Íslending, sem styður kennitöluflakk. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að hér sé heilbrigt starfsumhverfi fyrir atvinnufyrirtæki og einstaklinga sem lágmarki möguleika og tækifæri til að skjóta undan skatti.

Þegar við notum hugtakið kennitöluflakk þurfum við að gæta okkar á því að breiða það ekki yfir alls konar gamaldags glæpi og venjuleg fjárdráttarmál sem nú þegar er tekið á af mikilli hörku í ákærumeðferð og hjá dómsvaldinu. Ég nefni sem dæmi að menn fá á sig ákæru fyrir fjárdrátt ef menn skila ekki staðgreiðslusköttum sex mánuði í röð. Þannig er það í kerfinu hjá okkur. Þannig tökum við nú þegar, og höfum gert í áratugi, mjög harkalega á kennitöluflakki.

Aðrar aðgerðir geta falist í fjölbreyttum aðferðum við að þrengja að þeim sem með skipulegum hætti ætla að reyna að skjóta sér undan skyldum sínum gagnvart (Forseti hringir.) samfélaginu. Ekki er um eitthvert eitt úrræði að ræða í því sambandi heldur fjöldann allan af úrræðum, sem eru í vinnslu eða hafa þegar komið til framkvæmda.