145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

framkoma tryggingafélaganna.

[15:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessar aðgerðir séu ekki í anda laganna og sammála því sem hæstv. fjármálaráðherra rakti hér áðan um með hvaða hætti þyrfti að nálgast þetta mál.

Það virðist vera niðurstaðan af þessum fyrirspurnum og svörum, virðulegur forseti, að hv. þingmaður, hv. fyrirspyrjandi, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafi ekki gert neinar sérstakar ráðstafanir þegar milljarðar af almannafé voru settir í það að endurreisa a.m.k. eitt tryggingafélag — og óbeint kom auðvitað ríkið að öllum hinum vegna þess að það var með fjármálakerfið allt á sinni könnu — og ekki hafi verið gerðar neinar ráðstafanir til að endurheimta þetta fjármagn ef aðstæður kæmu upp eins og þær sem við horfum nú fram á. Það, virðulegur forseti, hlýtur að valda okkur áhyggjum að menn hafi ekki sýnt þá fyrirhyggjusemi að gera slíkar ráðstafanir. (SJS: Gleymdu ekki að ég ber ábyrgð á móðuharðindunum líka.)