145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

lög um fóstureyðingar.

[15:37]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni málþings sem stendur yfir í þessum töluðum orðum í Háskóla Íslands. Efni málþingsins er réttur kvenna til að taka ákvarðanir um eigið líf og endurskoðun laga um fóstureyðingar.

Í grein sem birtist í Læknablaðinu í nóvember á síðasta ári bentu nokkrir kvensjúkdóma- og fæðingarlæknar á ýmsa þætti í löggjöf um fóstureyðingar sem þeir telja úr takt við samtímann. Fyrst er að nefna hugtakið sjálft, „fóstureyðing“. Margir eru þeirrar skoðanir að hugtak þetta sé gildishlaðið og betra sé að nota hlutlausara hugtak á borð við „þungunarrof“.

Mig langar til að heyra viðhorf hæstv. ráðherra varðandi þessa hugtakanotkun.

Það sem læknunum er hins vegar helst hugleikið er sú aðstaða kvenna að tveir aðilar henni alls óskyldir þurfa að samþykkja beiðni hennar um þungunarrof, annaðhvort tveir læknar eða læknir og félagsráðgjafi.

Grundvallarfrelsishugsun okkar sem lifum á 21. öldinni byggir á því að hver einstaklingur eigi að njóta sjálfsákvörðunarréttar og að við eigum að ráða einkamálum okkar. Þetta á líka við um almennar læknismeðferðir, kynhegðun, fjölskyldumyndun og barneignir.

Þrátt fyrir að lögin séu almennt túlkuð þannig í dag að vilji konunnar og hennar eigið mat á aðstæðum og persónulegum högum sínum eigi að ráða breytir það ekki þeirri staðreynd að hún þarf að fá uppáskrift frá óháðum aðilum til að gangast undir þungunarrof. Það stenst ekki fyrrgreindar kröfur samtímans um sjálfsákvörðunarrétt fólks.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur upplýst að endurskoðun laga um fóstureyðingar sé í farvatninu. Mig langar því að spyrja ráðherra hverja hann hafi fengið til starfsins og hvað þeim hafi verið falið að endurskoða, til að mynda hvort einvörðungu eigi að endurskoða lög um fóstureyðingar frá 1975 eða hvort ákvæði almennra hegningarlaga um að bann við fóstureyðingum sé einnig undir í þeirri vinnu. Og að lokum: Hvenær má vænta niðurstöðu?