145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

lög um fóstureyðingar.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrirspurnina. Það er rétt að þetta málþing stendur yfir, sem ég hafði töluverðan hug á að sækja. Ég þurfti hins vegar því miður að sinna öðrum störfum, m.a. að sitja hér fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnum og geri ég það að sjálfsögðu með gleði.

Það er rétt að ég hef ákveðið að láta fara fram endurskoðun á þessum 40 ára lagabálki, þótt ekki væri nema fyrir aldur hans og þau viðhorf sem uppi voru í samfélaginu á þeim tíma. Þá er fullkomlega eðlilegt að minni hyggju að bregðast við ákalli frá ýmsum stöðum í þjóðfélaginu um að þessi mál séu tekin til endurskoðunar.

Ég tek alveg undir það að hugtakanotkunin eins og hún var fyrir nokkrum áratugum síðan er allt önnur og allt annar skilningur að baki en við höfum í dag. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að til þessa verk sé gengið.

Þær athugasemdir sem hv. þingmaður setur fram eru hárréttar. Það er meiri skilningur, það er meiri vilji til að mæta óskum um að sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga sé virtur á fleiri sviðum en hann gerir ef til vill í gömlu lagaverki.

Ég hef ekki enn þá lokið skipun starfshópsins. Ég hef þar af leiðandi ekki sent honum endanlegt erindisbréf enn þá. Þetta eru hugmyndir sem við erum enn að vinna með í ráðuneytinu. Ég kalla enn eftir tilnefningum til þeirrar vinnu.

Vinna sú sem ég hef haft í huga beinist fyrst og fremst að því regluverki, lagalega, og reglugerðum sem heyra undir mig sem ráðherra. Væntanlega mun koma fram í þeirri vinnu sem við hefjum og setjum á laggirnar ábending um endurskoðun einhverra annarra laga, eins og (Forseti hringir.) hv. þingmaður vitnar til að nauðsynlegt sé að skoða.