145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

áfengis- og vímuvarnastefna.

[15:44]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra í dag um áfengis- og vímuvarnastefnu. Nú lét hæstv. ráðherra það verða eitt af sínum fyrstu verkum, eftir að hann tók við heilbrigðisráðuneytinu, að undirrita eða samþykkja áfengis- og vímuvarnastefnu til ársins 2020. Þar eru sett fram nokkur merk yfirmarkmið, þ.e. að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum, að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa og að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis“ o.s.frv.

Nú má gera ráð fyrir að ráðamenn og ráðherrar vilji hafa ákveðinn samhljóm í þeirri löggjöf sem sett er af Alþingi og stefnu ríkisstjórnarinnar eða sitjandi stjórnvalds hverju sinni, meðal annars í lýðheilsumálum.

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á verslun með áfengi. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hver sé afstaða hans til þeirra hugmynda sem þar koma fram um afnám einkasölu áfengis með áfengisverslun og hvort hann sjái það samræmast þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa sett í lýðheilsumálum og þá sérstaklega með tilliti til áfengis- og vímuefnavarna.