145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

áfengis- og vímuvarnastefna.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um brennivínsmálið svokallaða, brennivín í búðir eins og stundum er sagt, eins og áfengi sé ekki selt annars staðar en í búðum; spurt hver afstaða mín sé til aðgengismála í þeim efnum. Ég hef ekki litið svo á að aðgengi að áfengi sé neitt vandamál á Íslandi í dag, það er það ekki. Við sjáum nánast á hverjum degi nýja veitingastaði eða sölustaði áfengis spretta upp. Gríðarlegur vöxtur hefur verið í þessum málum á síðustu árum. Við höfum sömuleiðis séð Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þetta einokunarfyrirtæki, vera að fjölga sölustöðum sínum, auglýsa sig og hvaðeina. Það virðist vera sú opinbera stefna sem ríkið hefur heimilað og menn leika lausum hala innan.

Ég er ekki talsmaður þess að sölu á þeim leyfilega vímugjafa sem alkóhólið er sé endilega best fyrirkomið í höndum ríkisstarfsmanna, opinberra starfsmanna. Þó að ég hafi tröllatrú á mörgum opinberum starfsmönnum þá treysti ég sömuleiðis, eins og löggjöfin hefur raunar gert fram til þessa, starfsfólki vínveitingastaða, veitingastaða, til að bera áfengi á borð. Þetta hefur ekki verið stórt vandamál í því samhengi.

Sem betur fer, þrátt fyrir þessa stefnu ríkisins á undanförnum árum, erum við að ná gríðarlega góðum árangri í áfengis- og vímuvörnum og sérstaklega meðal unglinga. Það er fagnaðarefni. Að því leyti til tel ég að stefnumörkun hins opinbera og hin raunverulega staða úti í þjóðfélaginu hafi á síðustu árum, og geri það raunar enn í dag, farið ágætlega saman.