145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

áfengis- og vímuvarnastefna.

[15:49]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra tala gegn þeirri stefnu sem sitjandi ríkisstjórn hefur í áfengis- og vímuvarnamálum sem, eins og ég las orðrétt hér upp áðan, miðar meðal annars að því að hafa takmarkanir á sölu áfengis.

Fjölmargar umsagnir hafa borist allsherjar- og menntamálanefnd út af þessu umrædda frumvarpi, meðal annars frá landlækni sem vísar til þess að á grundvelli bestu fáanlegu gagna og rannsókna sé takmörkun aðgengis að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna gegn aukinni áfengisneyslu og draga úr þeim skaða sem hlýst af neyslu. Landlæknir gengur svo langt að fullyrða að frumvarpið sé í beinni andstöðu við þá mikilvægu og það sem hann kallar metnaðarfullu stefnumótun stjórnvalda eða ríkisstjórnarinnar um að efla lýðheilsu í landinu.

Því spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra eina ferðina enn: Hyggst hann samþykkja þetta frumvarp og er honum alvara með því að ganga svona í berhögg við þá stefnu sem hann hefur samþykkt sjálfur?