145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[15:55]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.

Það er rétt að vekja athygli á að frumvarpið fjallar kannski minna um Seðlabanka Íslands en til stendur. Málið fjallar aðallega um heimild til að stofna félag til að fara með ýmsar eignir sem þarf að fullnusta í framhaldi af stöðugleikaframlögum.

Hér er fjallað um breytingartillögu nefndar sem eftir að hafa skoðað málið vel og ráðfært sig við fjölda gesta og m.a. fulltrúa ráðuneytisins leggur til að í stað þess að félagið sé undir Seðlabankanum heyri það beint undir ráðuneytið.

Þetta er svona aðalatriði málsins, ég vildi bara vekja athygli á því. Meiri hluti nefndarinnar stendur að breytingartillögunni. Einnig hefur komið fram tillaga um að málið verði tekið síðan aftur til nefndar til að skoða betur einn þátt málsins, þ.e. hvernig félaginu yrði slitið, og nefndin mun fjalla um það mál á næsta fundi.

En nefndin, þ.e. meiri hluti hennar, stendur að þessari breytingartillögu.