145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[15:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög stórt mál. Það snýst um mjög mikla hagsmuni, marga tugi milljarða sem koma inn í formi stöðugleikaframlaga. Það snýst um hvernig á að fara með þær eignir allar, koma þeim í verð og það sé gert á þann hátt að það sé gagnsætt allt saman og allra réttlætissjónarmiða gætt. Jafnframt að hagsmuna borgaranna og ríkissjóðs sé gætt í hvívetna.

Málið var slæmt þegar það kom inn í þingið, verulegir annmarkar voru á því, en sem betur fer hefur tekist í góðri samvinnu innan nefndarinnar og í samvinnu við ráðuneytið og á grunni fjölmargra góðra umsagna að bæta málið og sníða af því agnúa. Við í Bjartri framtíð sjáum okkur því fært að styðja það.

En þó svo að umgjörðin um þetta verulega stóra verkefni sé með lagafrumvarpinu ágæt þá er eftir sem áður auðvitað hægt að klúðra því. Ég (Forseti hringir.) vil nota tækifærið til að hvetja ríkisstjórnina og aðra til að gera það ekki.