145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég las í blaði um daginn að það væri byltingarkennd tillaga að leggja til að ráðherrar ættu ekki sæti á Alþingi. Það undrar mig svo sem ekki að það þyki fréttnæmara og byltingarkenndara að segja að píratar laðist að slíkum hugmyndum en að kerling á sjötugsaldri haldi þeim á lofti. En virðulegi forseti, þetta má ég nú una við.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég tala fyrir þessari tillögu. Á undan mér hafði Siv Friðleifsdóttir í einhver skipti mælt fyrir tillögu af sama toga. Það er samt munur á tillögum okkar tveggja. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að honum.

Tillaga Sivjar var um breytingu á stjórnarskrá. Eins og við vitum og kemur sífellt skýrar í ljós að ekki er auðvelt að breyta henni. Samkvæmt stjórnarskránni sitja ráðherrar á Alþingi samkvæmt embættisstöðu sinni. Sú eða sá sem kjörinn er alþingismaður og verður ráðherra getur því ekki afsalað sér atkvæðisrétti nema afsala sér þingsæti. Siv lagði til eftirfarandi breytingu við stjórnarskrána, með leyfi forseta:

„Sé þingmaður skipaður ráðherra skal hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherradómi og tekur varamaður hans sætið á meðan.“

Frumvarpið er lagt fram til þess að þau sem það vilja geti sagt af sér þingmennsku ef þau verða skipuð ráðherrar, en það gerir þeim engu að síður kleift að hverfa aftur til þings á kjörtímabilinu ef þau svo kjósa. Þetta er venjulegt lagafrumvarp og meira að segja þingmannafrumvarp, en ég veit ekki hvar það er í goggunarröðinni á þessu þingi. Þetta er frumvarp sem öðlast getur gildi nú þegar, ólíkt breytingum á stjórnarskrá sem samþykkja þarf með sérstökum hætti eins og við öll vitum.

Frumvarpið er flutt til þess að þau sem það vilja, verði frumvarpið samþykkt, geti sagt af sér þingmennsku en þó horfið aftur til starfa á þingi á kjörtímabilinu ef þau svo kjósa. Aðstæður eða hagir fólks, líka þingmanna, geta breyst á fjórum árum. Þeir geta verið hvort heldur er persónulegir eða pólitískir.

Það er varla hægt að ætlast til þess af nokkrum, ekki einu sinni þingmönnum, að þeir segi af sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar og geti svo ekki horfið aftur til þeirra starfa á kjörtímabilinu ef einhverjar slíkar breytingar verða á lífi þeirra eða að þeim sé það ekki unnt. Verði frumvarpið samþykkt er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvað hún eða hann gerir í þeim efnum. Það er ekki skylda en það er heimilt og leyfilegt og mögulegt án þess að ganga of nærri persónulegum hagsmunum sínum.

Í niðurstöðum þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má meðal annars finna eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“

Þetta er eitt af því sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í þingsal fyrir nokkrum árum, en við höfum nú ekki verið dugleg við að framfylgja því sem við samþykktum þar.

Ég hef nýlagt fram tillögu sem ég geri ráð fyrir að hafi verið útbýtt í dag, eða ég vona það, um að setja Þjóðhagsstofnun aftur á stofn, þ.e. sjálfstæða stofnun sem fjallar um efnahagsmál. Það var líka í tillögum þingmannanefndarinnar sem samþykktar voru hér með öllum greiddum atkvæðum en ekki hefur hins vegar orðið af að fara eftir. Ég bendi á það því að við höfum ekki mikið farið eftir þeim viðmiðum sem við settum okkur sjálf hér fyrir nokkrum árum.

Í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er lagt til að ráðherrar láti af þingmennsku. Um það segir í skýringum stjórnlagaráðs, með leyfi forseta:

„Með þessu er löggjafar- og framkvæmdarvaldið aðskilið frekar, enda eru ráðherrar þá ekki lengur í þingflokkum og taka að jafnaði aðeins þátt í umræðu í þinginu ef þeir eru til þess kallaðir. Þinginu er þannig gert auðveldara að fylgjast með og gagnrýna frammistöðu ríkisstjórnar með sjálfstæðum hætti.“

Virðulegi forseti. Ég trúi því nú ekki að ég eigi eftir 25 mínútur í ræðustól, ég mun ekki nota þær.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvað þessari samkundu hér þykir áríðandi, eða hitt þó heldur, að fylgja tillögum stjórnlagaráðsins sem ótvíræður meiri hluti þjóðarinnar vill að verði hafður sem grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði í ræðu sinni þegar hún flutti þetta mál að þegar ráðherrar hefðu fengið kynningu á frumvörpum annarra ráðherra í ríkisstjórn og ekki gert athugasemd við þau væri mikil tilhneiging hjá þeim að koma frumvörpum einnig í gegnum þingflokka sína og það gerði þingmönnum erfitt að stöðva málið eða að koma fram verulegum breytingum. Hv. fyrrverandi þm. Siv Friðleifsdóttir talaði af eigin reynslu vegna þess að hún hafði setið í ríkisstjórn um árabil.

Ég held að hafi verið hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sem orðaði það þannig eitt sinn í þingsal hversu auðvelt væri að vera meðvirkur í starfinu hér. Ég vil taka undir það. Þeim mun meira sem menn hafa unnið að málum áður en þau eru lögð fram þeim mun erfiðara er að ná fram breytingum, það skal ég fúslega votta um.

Samtryggingin í stjórnmálum verður ekki endilega til af lævísum eða illum hvötum, heldur einfaldlega af meðvirkni. Það er erfitt að slíta sig frá og horfa á málin úr fjarlægð. Þess vegna er svo nauðsynlegt að þeir sem fara með völdin séu ekki í of mörgum hlutverkum og að þeir geti haldið sig í nokkurri fjarlægð frá smáatriðunum, að fólk geti litið yfir sviðið og séð stóra samhengið. Auðvitað er sú breyting sem hér er lögð til bara lítið skref í áttina að auknu sjálfstæði þingsins, en hvert lítið skref skiptir máli.

Mér hefur því miður virst nokkuð bera á því undanfarið að okkur finnist við kannski ekki þurfa að laga eða læra svo mikið af þeim óförum og ósköpum sem gengu yfir þjóðfélagið fyrir nokkrum árum. Ég er algerlega á öndverðri skoðun. Okkur hefur vissulega ekki auðnast að taka stór skref til breytinga. En því fremur eigum við að taka þau litlu skref sem við höfum möguleika til og ekki gera lítið úr þeim. Auðvitað hafa menn skiptar skoðanir á því sem hér er lagt til. Mér finnst okkur bera skylda til að ræða málið og viðra hinar ýmsu skoðanir í málinu. Einhvern tímann var sagt að styrkur stjórnarmeirihlutaflokka ykist um of við þessa tilhögun. Ríkisstjórnarflokkar hefðu meiri styrk á þinginu.

Gleymum því ekki, virðulegi forseti, að í átakamálum ræðst styrkur á þinginu af atkvæðum og ekkert mun breytast í þeim efnum. Raunar finnst mér stundum nú til dags að þátttaka þingmanna ríkisstjórnarflokkanna í umræðum í þingsal ekki benda til þess að rödd þeirra væri óbærileg þó að tíu þingmenn bættust í hópinn. Kannski legðu þingmenn þá meira til málanna en raunin er í dag. Ef það væri mikill þröskuldur, þ.e. að styrkur ríkisstjórnarflokka ykist um of, mætti einnig bæta aðstöðu stjórnarandstöðunnar og leggja henni til aukinn starfskraft. Þá segja einhverjir: Það kostar fé.

Virðulegi forseti. Lýðræðið kostar fé. Góðir stjórnarhættir kosta fé og betra löggjafarstarf kostar fé, en hitt kostar meira og ég hélt við hefðum lært þá lexíu.

Ég hvet stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem mun fá þetta mál til meðferðar, til að fjalla um það og afgreiða það hingað til 2. umr.