145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og öðrum þingmönnum sem lögðu frumvarpið fram. Ég tek undir með hv. þingmanni sem sagði í upphafi ræðu sinnar að þetta væri ekki byltingarkennd hugmynd. Hún er hvorki ný né byltingarkennd, þvert á móti er hún gömul og mjög hófleg. Ég tel þessa útfærslu á henni vera sérstaklega hóflega. Mér þykir það algjörlega sjálfsagt að ráðherrar láti af þingmennsku og missi atkvæðisrétt sinn á meðan þeir gegna ráðherrastörfum. Mér þykir það grundvallaratriði. Mér finnst það jafn sjálfsagt og að dómari sé ekki alþingismaður á sama tíma. Mér finnst það algjörlega sjálfsagt. Ég furða mig stundum á því að við skulum enn temja okkur það fráleita fyrirkomulag að ráðherrar séu þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar og hafi atkvæðisrétt á Alþingi á löggjafarsamkundunni. Mér finnst það algjörlega út í hött.

Ég er að velta ákveðnum atriðum fyrir mér í sambandi við þessa tillögu. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er öðruvísi farið með þetta. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.“

Þetta er í 89. gr. frumvarps stjórnlagaráðs og var óbreytt eftir meðferð hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili. Í þessari tillögu er um að ræða heimild ráðherra — ekki skyldu heldur heimild — til að víkja úr þingsæti á meðan. Ég átta mig á því að það er væntanlega vegna þess að hv. flutningsmenn frumvarpsins telja ekki mögulegt að setja með þingsköpum ákvæði sem beinlínis bannar það.

Í 51. gr. stjórnarskrárinnar stendur einnig, með leyfi forseta:

„Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi og eiga þar rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa.“

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé algjörlega sannfærður um að ekki sé hægt að banna ráðherrum að vera þingmenn á sama tíma með lögum.