145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, sem var upplýsandi; mér finnst málið ágætlega rökstutt. Ég hef í sjálfu sér ekki tekið afstöðu til málsins, mér finnst ég aðeins þurfa að skoða það betur.

Þingmaðurinn sagði að það gæti verið erfitt að koma fram breytingum, að koma málum fram í þingflokkum sínum o.s.frv., og nefndi meðal annars Siv Friðleifsdóttur í því sambandi. Þingmaðurinn sagði einnig að ef þingmönnum fjölgaði hefðu þeir meira til málanna að leggja. Segjum að þingmönnum Framsóknarflokksins fjölgaði um fimm — lítill þingflokkur fær mikið vægi í þingsal ef hann er í ríkisstjórn, og þá horfi ég fyrst og fremst á þennan aðskilnað framkvæmdarvaldsins frá löggjafarvaldinu. Ég er ekki jafn sannfærð og þingmaðurinn um að það breyti svo miklu að ráðherrar séu ekki þingmenn. Þeir hætta ekki að tala við sitt fólk, þeir hætta ekki að tala fyrir sínum málum þó að ásýndin verði önnur hér í þingsal þegar þeir ýta ekki á já- eða nei-hnappinn.

Við vitum að þetta er dýrara. Ég mundi miklu frekar vilja styrkja stjórnarandstöðuna, að hún fengi á hverjum tíma mun betri og meiri aðstoð en hún hefur í dag. Ég er ekki búin að gera þetta mál upp við mig, alls ekki. Ég skil alveg það sem hér er verið að tala um. (Forseti hringir.) Vandaðri vinnubrögð við löggjafarstörfin — eru þau kannski fyrst og fremst fólgin í því að ýta á já- eða nei-takkann? Hvernig sér þingmaðurinn það fyrir sér að það slitni algjörlega á milli ráðherra og þingmanna?