145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít á þetta fyrst og fremst sem styrk. Um styrk á þingi þá ræður náttúrlega fyrst og síðast atkvæðavægið, það mun ekki breytast. Ég lít á það í fyrsta lagi frá þeim sjónarhóli. Í öðru lagi tel ég að þegar þingmenn eða ráðherrar — þeir eiga að taka fullan þátt í störfum þingsins, við vitum náttúrlega að þeir gera það, en það er misjafnt hvað fer mikið fyrir því. Þeir sitja þingflokksfundi og þeir tala þar.

Eins og kom fram í ræðu Sivjar Friðleifsdóttur þegar hún flutti sambærilegt mál á sínum tíma þá benti hún á að þegar fólk væri búið að ræða mál í ríkisstjórn og tala fyrir þeim þar væri fólk orðið svona pínulítið og gæti hugsanlega — ég ætla að leyfa mér að nota orðið samdauna því sem er í gangi. Síðan koma ráðherrar inn í þingflokka og flytja málin þar og eru búnir að fjalla um þau, þannig að þeir hafa ekki þá fjarlægð á málin sem ég tel að sé nauðsynleg fyrir þingmenn að hafa til að sjá stóra samhengið. Ég held að það skipti máli að ráðherrar sitji ekki líka í þingflokkum og flytji mál ríkisstjórnarinnar þar í lokuðu rými. Þá meina ég ekkert ljótt með því. Það er staðreynd. Ég tel að þetta leysi ekki allan vanda, en ég held að þetta yrði skref í þá átt að skilja betur (Forseti hringir.) á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.