145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki bara þannig að ráðherrar komi inn í þingflokka sína og tali fyrir sínum málum. Þeir eru búnir að vera í öllu ferlinu með öll mál ríkisstjórnarinnar. Það er bara þannig og flest fólk innvolverast mjög í það sem það veit mikið um. Ég er að tala um að öðlast þessa fjarlægð, að sjá hlutina í hinu stóra samhengi en vera ekki inni í smáatriðunum og öllu því, heldur að sjá hið stóra samhengi. Ég held að það skipti meginmáli. Ég veit svo sem ekki hvort ráðherrar hætti að skipa þingnefndir til að gera hitt eða þetta. Það er allt önnur Ella vegna þess að þetta er framkvæmdarvaldið. Við erum að tala um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þó að þingmenn séu í einhverjum nefndum þar sem þeir undirbúa mál þá hafa þeir ekki framkvæmdarvald (Forseti hringir.) við það. Þeir hafa einhvern tillögurétt til þingsins.