145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir málið. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og fleirum sem hafa rætt þetta mál — ekki við þetta tækifæri heldur annars staðar og í gegnum árin, það er alls ekki svo að þetta sé nýtt mál, þetta hefur verið í umræðunni áratugum saman á Íslandi — að mín afstaða sveiflast mjög mikið. Ég er ýmist þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega mikilvægt og gott mál að greina þarna á milli, út frá prinsippum um þrískiptingu valdsins, en svo eru önnur rök sannfærandi sem lúta einfaldlega að því mikla vægi sem stjórnarflokkarnir hefðu í umræðunni í þingsalnum.

Það yrði til dæmis þannig, ef allir færu að þessari tillögu í núverandi ríkisstjórn og segðu sig frá þingstörfum og kölluðu inn varamenn, að þá væri hér næstum tugur stjórnarþingmanna til viðbótar við þær raddir sem berast héðan af ráðherrabekknum. Mörgum kann að finnast það valda ákveðnu lýðræðismisræmi í umræðum í þingsal.

Ég vil eiginlega biðja hv. þingmann um að hjálpa mér að taka af skarið með það að hafa skýrari skoðun á málinu en ég hef, þ.e. að sannfæra mig um að þessi rök séu ekki eins þung og margir vilja vera láta og að prinsipprökin vegi þyngra í þessu efni.