145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í örstuttri ræðu gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli. Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og styð hana vitaskuld. Það er hins vegar ekkert launungarmál að ég hefði viljað ganga lengra. Ég er ekki fyllilega sammála hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að nauðsynlegt sé að kveða á um það ferðalag sérstaklega með því að breyta stjórnarskránni.

Ég tel hins vegar að sú útgáfa sem hér er lögð fram sé skynsamleg vegna þess, eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að menn hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná því fram að skilið sé með afgerandi hætti á millum framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins með því að ráðherrar sitji ekki á þingi. Það hefur verið mikil andstaða gegn því. Þau rök sem helst hafa verið flutt fram — ja, við heyrðum enduróm af þeim í vangaveltum hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur og það eru fullkomlega lögmæt viðhorf sem þar komu fram.

Rétt er að geta þess að á fyrsta landsfundi stjórnmálaflokks, sem ég var einu sinni formaður í, lagði ég fram tillögu um fullan aðskilnað með því að ráðherrar sætu ekki á þingi. Það var stefna Samfylkingarinnar í fjögur ár. Síðan var því breytt þangað til skömmu fyrir lok síðasta áratugar, að ég hygg, að það kom aftur þarna inn.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag sé mikilvægt til þess að ná fram sterkum aðskilnaði og draga úr því sem ég kalla ráðherraræði. Það er raunar ekki aðeins ég sem kalla það ráðherraræði, það er nefnt svo í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er bókstaflega sagt að ráðherraræði hafi átt svolitla sök á þeim óförum sem íslenska bankakerfið og þar með íslenska þjóðin lenti í.

Við sem höfum verið hér lengi á dögum, bæði verið þingflokksformenn stjórnmálaflokka okkar í stjórnarliði og í stjórnarandstöðu og setið í mörgum ríkisstjórnum, þekkjum alveg hvernig þetta er. Auðvitað er það þannig að ráðherrarnir leggja ofurkapp á að ná málum sínum fram. Það er fullkomlega eðlilegt.

Hverjir veljast til þess að verða ráðherrar? Það eru yfirleitt þeir sem hafa mesta reynslu og eru komnir með mest afl, mest af hinum ósýnilegu völdum, svo ég vísi í umræður á Pírataspjallinu þar sem ég er tíður gestur. Vitaskuld beita þeir valdi sínu til að ná málum sínum fram.

Ég held þess vegna, og tek undir það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði áðan, að þetta sé kannski ekki jafn stórt skref og margir velta fyrir sér að felist í því. Þetta er millileið. Menn hafa heimild til að gera þetta. Eftir sem áður munu þeir sem veljast til ráðherraembættis og segja af sér þingmennsku eiga sæti í þingflokkunum. Þar gildir einu hvort þeir eru formlega þingmenn eða ekki, hin ósýnilegu völd þeirra eru jafn mikil.

Þar sem ég tel að þetta gæti skipt máli er í þeim tilvikum, sem við þekkjum mörg í þessum sal, þegar flokkar sitja saman í samsteypustjórnum og það rísa kannski málefnalegir úfar á millum flokkanna, sér í lagi þegar líður á kjörtímabil. Þá er það stundum að þingmenn í andstæðum flokki við ráðherrann vilja fara aðra leið og eru eigi að síður kúgaðir til hlýðni. Það er bara þannig. Það er ekki hægt að segja það á neinn annan hátt. Svona hefur þetta verið. Við sjáum það nánast gerast hér þessa dagana á Alþingi Íslendinga.

Ég held hins vegar að varðandi þetta vald, áhrifavaldið sem nær inn í aðra þingflokka stjórnarliðs, gæti þetta skipt máli.

Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að lyfta sjálfstæði þingsins. Það hefur að vísu á árunum eftir hrun orðið miklu meira. Á áratugnum fyrir hrun má heita að löggjafarsamkundan hafi lotið fullkomnu valdi framkvæmdarvaldsins. Ráðherrar, sumir búnir að vera lengi á vellinum og ægisterkir í flokkum sínum, komu nánast öllu fram sem þeir vildu án þess að nokkur kæmi vörnum við.

Þó að slíkir menn sitji kannski ekki á þingi núna eru aðeins örfáir mánuðir síðan við urðum vitni að því þegar þrýst var í gegnum þingið frumvarpi sem enginn treysti sér til að tala fyrir annar en hæstv. ráðherra. Það gerðist í desember. Þá lauk vegferð hæstv. utanríkisráðherra sem lagði fram frumvarp sem enginn studdi svo að sjáanlegt væri fyrr en kom í atkvæðagreiðsluna. Það lá við að þingmenn Sjálfstæðisflokksins gengju hér með uppsölum í hvert skipti sem á þetta mál var minnst. En flokksræðið náði í gegn.

Ég held þess vegna að til að þingið standi rétt að öllum málum sé mjög mikilvægt að það sé algjörlega kristaltært að þarna sé skilið á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins.

Þó að ég tali með þessum hætti og geri því skóna að Alþingi hafi ekki nægilega mikið sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu er það eigi að síður svo að ef við berum okkur saman við önnur þing er margt sem virðist benda til þess að þetta þing hafi samt sem áður miklu meiri áhrif á löggjöf en víða gerist annars staðar.

Í síðustu viku var ég staddur með forseta þingsins og tveimur öðrum þingmönnum í Westminster, í breska þinginu, þar sem við áttum meðal annars langan fund með þingforseta Breta, John Bercow, og fræddumst mjög um það hvernig þingstörfum vindur þar fram. Ég var svolítið hissa að heyra hjá forseta eins elsta þings í heiminum að þar er það viðburður að frumvörpum sem koma frá ríkisstjórninni sé breytt.

Sama dag og ég hlustaði á þingforsetann var samþykkt á Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um fullnustu refsinga þar sem lagðar voru fram 90 breytingar. Það bendir til þess að Alþingi Íslendinga hafi þrátt fyrir allt töluvert mikil áhrif á löggjöf. Þó má líka finna á því aðra skýringu sem er sú að í breska þinginu sé til dæmis undirbúningurinn og samráð við stjórnmálaflokka, eins og við vitum að gerist í Skandinavíu, miklu ríkara. Þegar málin koma inn í þingið er því búið að tryggja töluvert meiri samstöðu. Ég treysti mér þó ekki til að skera nákvæmlega úr um það.

Ég vildi nefna þetta í sama mund og ég tala um nauðsyn þess að efla sjálfstæði þingsins því að það er samt sem áður þannig að Alþingi tók sér aftur það vald að töluverðu leyti sem búið var að framselja framkvæmdarvaldinu á fyrstu árunum eftir hrunið. Það hefur verið að síga á gömlu hliðina aftur en eigi að síður getur það haft mikil áhrif á löggjöf, þ.e. á þau frumvörp sem koma frá framkvæmdarvaldinu.

Þau rök sem hv. þm. Bjarkey Olsen var með voru öll þess eðlis að það ber að meta þau. Hún færir fram kostnað og það er alveg hárrétt hjá henni, menn þurfa að skoða svona hluti. En lýðræðið kostar. Kannski er eitt sem ég er henni ekki sammála um, og þó sló hún engu föstu þar um, en hún tók upp rök sem við höfum oft heyrt sem eru að þetta mundi leiða til þess að stjórnarflokkarnir, sem eðli málsins samkvæmt hafa meiri hluta og eru þegar fyrir með fleiri þingmenn, meiri mannskap í salnum, mundu hugsanlega fá 10–12 menn til viðbótar.

En þá er reynslan sú, eins og kom fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að við höfum ekki þurft að kvarta undan því að þeir sem sitja hér á fleti fyrir ríkisstjórnarflokkana taki upp mikið af tíma þingsins með ræðuhöldum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Því miður, liggur mér við að segja. Ég held því að sá ótti sé ástæðulaus. En ég ítreka að ég held það sé rétt sem hv. þingmaður sagði áðan um völdin, að þau yrðu kannski ekki svo mikil, hin ósýnilegu völd, þau breyttust kannski ekki svo mikið. Kostnaðurinn er líka eitthvað sem menn þurfa að skoða.

En þegar allt er metið er ég þeirrar skoðunar að þetta sé skref í rétta átt. Það kann að vera rétt hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að breyta þurfi stjórnarskrá til þess að hægt sé að stíga þetta skref algjörlega og kveða á um þetta. Ég var ekki þeirrar skoðunar í gamla daga en ég er viss um að hv. þingmaður, sem hefur lengi vélað um stjórnarskrána, veit það miklu betur en ég.

Ég vildi í örstuttri ræðu, herra forseti, koma þessum viðhorfum mínum á framfæri. Ég tel að þetta sé framfaraskref og að það styðji sjálfstæði þingsins.