145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvorki hef ég þrek, vilja né sannfæringu til þess að taka undir þá sjálfslýsingu hv. þingmanns að hún hafi breyst í kerfiskerlingu, mundi ég aldrei lýsa kafteini Pírata með þeim hætti.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að þetta er bara eitt skref. Ég held að þetta skipti engum sköpum. Þegar búið er að taka á þessari breytingu til fulls þannig að það sé ekki einungis um heimild að ræða heldur sé það í gadda slegið að ráðherrar sitji ekki á þingi samhliða, þá er alla vega kominn alveg skýr aðskilnaður á millum þessara tveggja verkþátta stjórnskipunarinnar. Það er mikilvægt. Við byggjum á þrígreiningu þeirra og þetta er mikilvægt til þess að svo verði.

Hv. þingmaður nefnir hvað ætti annað að gera. Ég er náttúrlega þeirrar skoðunar að ef menn vilja koma í veg fyrir að misbeitt sé eða ofbeitt því einasta vopni sem stjórnarandstaðan hefur þegar í nauðir rekur, þ.e. að halda hér mjög langar en stundum efnisríkar ræður, að það sé að breyta stjórnarskránni þannig að hægt sé að koma slíkum málum í þjóðaratkvæði. Ég beygi mig undir það. Ég beygi mig ekki undir ofríki ráðherraræðisins hér. Eins og hv. þingmaður veit þá grípum við til annarra ráða sem við bæði tvö erum fullþjálfuð í.

Ég ætla að nefna annað mál sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir drap á í ræðu sinni, Þjóðhagsstofnun. Ég bý nefnilega að þeirri reynslu að hafa verið þingmaður og getað sótt til Þjóðhagsstofnunar sem var fullkomlega óháð stofnun og svaraði undanbragðalaust því sem til hennar var beint. Þar með gat maður fengið krítíska sýn á þau mál sem eru mikilvægust hérna, þ.e. efnahagsmálin og fjárreiður (Forseti hringir.) ríkisins. Ég tel mjög mikilvægt að ná því fram. (BirgJ: Heyr, heyr.)