145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir þessi tillaga mikið afbragð í því samhengi að um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Eins og við ræddum stuttlega í andsvörum áðan, ég og hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps, er í frumvarpinu kveðið á um heimild ráðherra til að víkja tímabundið af þingi meðan hann er ráðherra. Auðvitað mundi maður helst vilja hafa þetta eins og það er til dæmis í frumvarpi stjórnlagaráðs, bæði fyrir og eftir meðferð hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili, að það sé beinlínis skylda ráðherra að víkja úr þingsæti meðan hann sinnir ráðherrastörfum. Mér þykir það afskaplega sjálfsagt með hliðsjón af þrískiptingu valdsins, því að reyndin er sú hér á landi að við höldum alþingiskosningar og efstu menn af listum úr kosningum fá framkvæmdarvaldið í kaupbæti ofan á þingsetuna, ofan á löggjafarvaldið. Það þykir mér í hæsta máta óeðlilegt.

Það er alveg hárrétt sem hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps sagði áðan að þetta er ekki byltingarkennd hugmynd, eins og sumir fjölmiðlar hafa viljað halda fram, að Píratar, sem ályktuðu nýlega um þetta í ferli sínu, hafi komið með byltingarkennda hugmynd. Svo er ekki. Þetta er hófleg hugmynd. Hún er mjög hófleg og sjálfsögð. Hún er gömul, alls ekki ný af nálinni. Að skipta upp valdi er ekki ný hugmynd. Það er mjög gömul hugmynd og hún er mjög sjálfsögð. Að mínu mati er til skammar hversu illa við höfum staðið okkur í því að raungera skiptingu valdsins hér á landi þegar kemur að löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu.

Mig langar við þetta tilefni að renna aðeins yfir stefnu Pírata sem var nýlega samþykkt í ferli okkar. Þar álykta Píratar, með leyfi forseta, að: „Píratar skuli ekki eiga aðild að ríkisstjórn þar sem ráðherrar sitji jafnframt sem þingmenn“. Kannski var það þetta sem mörgum, eða einhverjum alla vega, þótti byltingarkennt, að við ætlum ekki að sitja í ríkisstjórn nema ráðherrar segi af sér þingmennsku á meðan eða víki að minnsta kosti úr þingsæti á meðan þeir eru ráðherrar. Það er eitthvað sem við ákveðum sem flokkur. Við getum ekki ákveðið það fyrir aðra en við ákveðum það fyrir okkur sjálf og höfum gert það og mikill meiri hluti samþykkti þessa stefnu, rétt rúm 94% þeirra sem greiddu atkvæði innan Pírata. Það er mikill samhugur þar.

Óháð því hvort það þyki byltingarkennd hugmynd eða ekki að flokkur ákveði eitthvað svona fyrir sjálfan sig stendur eftir að þetta er afskaplega sjálfsögð krafa. Þótt ég styðji þetta frumvarp heils hugar, auðvitað á þeim forsendum að það lítur út fyrir að ekki sé hægt að ganga lengra með því að breyta þingsköpum einum og sér, verður maður að velta fyrir sér hvort þetta sé ekki heimilt nú þegar, hvort ráðherra geti ekki vikið úr þingsæti meðan hann er ráðherra og fengið inn varamann á meðan. Ég hefði nefnilega haldið að það væri ekkert því til fyrirstöðu. Hér fara menn af ýmsum ástæðum tímabundið af þingi og kalla inn varamann, ég er því ekki viss um að það þurfi þessa lagabreytingu.

Hins vegar held ég að með því að raungera lagabreytinguna væri hægt að breyta hefðunum, breyta þrýstingnum á ráðherra sem ég held að sé í dag í þá átt að þeir haldi áfram þingmennsku. Ef þetta frumvarp yrði að lögum mundu ráðherrar upplifa þrýsting til að víkja af þingi meðan þeir sætu í ráðherrastól. Það væri vitaskuld afskaplega jákvæð þróun, jafnvel þótt það væri ekki samkvæmt ákvæði stjórnarskrár.

Þegar ég les 51. gr. gildandi stjórnarskrár verð ég að segja að ég hefði haldið í fljótu bragði, án þess að hafa ráðfært mig við neina sérfræðinga um efnið annan en hv. 1. flutningsmann þessa frumvarps, að með þeirri grein væri heimilt að setja þessi lög í þingsköp þannig að það væri skylda ráðherra að víkja úr sæti á Alþingi meðan hann væri ráðherra. En auðvitað er þar 2. málsliðurinn þar sem stendur, með leyfi forseta: „Atkvæðisrétt eiga þó þeir því aðeins, að þeir séu jafnframt alþingismenn“. Ég skil ágætlega að þarna er gert ráð fyrir að alþingismenn geti verið ráðherrar á sama tíma, hins vegar er það fyrri málsliðurinn sem mér þykir alveg opna spurninguna, í það minnsta.

Þetta er ekki eitthvað sem á að vera óskýrt, eitthvað sem við viljum velta fyrir okkur þegar breytingin hefur átt sér stað. Það á að vera algerlega skýrt. Þess vegna vil ég koma því að að þetta á vitaskuld að vera í stjórnarskrá.

Í því sambandi er alveg þess virði að fara aðeins út í ágætt plagg sem er kallað frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga. Þar eru mörg mjög góð ákvæði. Ég verð að segja að í hvert sinn sem ég lít í þetta plagg man ég hvers vegna það er mikilvægt að raungera það frumvarp og gera að stjórnarskrá Íslands í öllum meginatriðum. Þar er 89. gr. og 90. gr. sem mig langar örstutt að drepa á. 89. gr. er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Ráðherrar mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir en gæta verða þeir þingskapa.

Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.“

Þetta er afskaplega góð klausa að mínu mati. Svona ætti þetta að vera.

En það er alveg þess virði að spyrja líka hverjar afleiðingarnar eru af þessu ágæta frumvarpi því að í 90. gr. kemur fram hugmyndafræðilegur grundvallarmunur á því hvernig frumvarp stjórnlagaráðs er hugsað, sem stjórnarskrá fólksins þar sem valdið streymir frá fólkinu og upp á við, og þeirri hefð sem við komum úr, sem er sú að valdið kemur frá guði og fer þaðan niður til konungs, niður til þingsins og niður til þjóðar. Þaðan kemur arfleifð íslensku stjórnarskrárinnar, frá Danmörku, frá konungsveldinu.

Vissulega er Danmörk lýðræðisríki. Það er ekki hægt að segja annað. En það er hugmyndafræðilegur grundvallarmunur til staðar. Mér finnst hann endurspeglast vel í 90. gr. frumvarps stjórnlagaráðs, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs forsætisráðherra.

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meiri hluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti.“

Þetta er heldur löng grein þannig að ég ætla ekki að lesa hana alla upp. En þarna er grundvallarmunur á því hvernig við hugsum um vald. Þarna kemur valdið neðan frá og fer upp á við, ekki ofan frá og niður á við. Ég veit að þetta er ekki lögskýring sem hér er á ferð en þetta er hugmyndafræðilegur munur og mér þykir hann skipta máli og mér finnst hann skipta gríðarlega miklu máli þegar við hugsum um grundvallaratriði lýðræðisríkis á borð við þrískiptingu valdsins, sérstaklega í ljósi þess að við stöndum okkur einfaldlega ekki þegar kemur að þeim mikilvæga þætti nútímasamfélags.

Í ágætri ræðu hv. 4. þm. Reykv. n. áðan var farið inn á ósýnilega valdið, eitthvað sem hefur sem betur fer verið til umræðu upp á síðkastið og er alveg þess virði að viðra í þessu samhengi. Það er þannig, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og það fæst staðfest hér af hv. þingmönnum sem áður hafa verið hæstv. ráðherrar, að það er alltaf til staðar ákveðið vald sem ráðherrar hafa yfir þingflokki, sér í lagi þegar þeir eru einnig þingmenn. Það á ekki eingöngu við þegar þeir eru einnig þingmenn en sérstaklega þegar þeir eru einnig þingmenn, þegar þeir tilheyra beinlínis enn þá þingflokki, sem ég hygg að yrði óhjákvæmilega afleiðingin áfram, jafnvel þótt þetta frumvarp næði fram að ganga og yrði að lögum. Ég hugsa hins vegar að það yrði ekki endilega afleiðingin ef eitthvað eins og 89. gr. frumvarps stjórnlagaráðs yrði lögfest í stjórnarskrá landsins. Þar hygg ég að sé grundvallarmunur á aðferðafræðinni, á því að setja þetta í þingsköp sem heimild annars vegar og setja þetta sem skyldu í stjórnarskrá hins vegar. Það er grundvallarmunur þarna á sem ég held að skipti verulegu máli. Þetta er að sjálfsögðu sagt með þeim fyrirvara að ég styð málið og tel það gott en tel að ganga þurfi miklu lengra. Það þarf að breyta stjórnarskrá til að gera þetta almennilega, að mínu mati.

Síðast en ekki síst, eða kannski síðast en alla vega alls ekki síst, langar mig að fjalla um kostnaðinn. Þegar kemur að lýðræðisumbótum og kerfisbreytingum dettur mörgum fyrst og fremst í hug að allt sem skili betra eða skilvirkara lýðræði hljóti að vera ægilega dýrt og kosta ógrynni af peningum. Það eru tvö svör við því. Í fyrsta lagi: Það er ekki rétt. Lýðræði er ekki dýrt. Það kostar ekki mikla peninga. Það er ekki mjög flókið. Við höfum gert þetta í mjög langan tíma og með „okkur“ á ég við heilu samfélögin, langt út fyrir Ísland. Hitt svarið er: Jafnvel ef það væri umtalsvert dýrara en það raunverulega er væri það samt þess virði. Við erum að tala um undirstöðu samfélags, grunnforsenduna, grundvallarréttlætinguna fyrir því að einn hafi yfir höfuð vald yfir öðrum. Án þeirrar réttlætingar er engin leið til að útkljá vald nema ofbeldi. Að því gefnu að við viljum það ekki hljótum við að vilja lýðræði. Við hljótum að vilja það sama hvað það kostar. Annars mun það kosta ofbeldi.

Ég fór einhvern tíma yfir það sem ég gat áætlað að einn þingmaður kostaði á ári og komst að þeirri niðurstöðu að það væru um 100 milljónir á ári. Ef við gefum okkur tíu ráðherra í ríkisstjórn segjum við tíu þingmenn á ári og þá eru þetta um 120 milljónir. [*Sjá leiðréttingu þingmanns í ræðu 9.3 kl. 16.31.] Ef við gefum okkur að þetta kosti enn þá meira hygg ég að það væri samt ágætisnýting á fé.

Ég tók úr frumvarpi til fjárlaga 2016 örfáar tölur til að setja málin í samhengi. Fjarskiptasjóður er þar með 700 milljónir úr ríkissjóði. Þjóðkirkjan er með 1.580 milljónir. Ég vil ítreka þetta: Þjóðkirkjan er með 1.580 milljónir. Og við tölum um að það hljóti að vera svo dýrt koma á almennilegum lýðræðisferlum. Það er bara þvæla, virðulegi forseti, með fullkominni virðingu. Kirkjugarðar: 1.059 milljónir. Þjóðskrá: 1.197 milljónir. Nú er ég ekki endilega, alla vega ekki við þetta tilefni, að leggja til að þeim upphæðum verði breytt, þótt ég sé vitaskuld hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og telji ekki að trúmál eigi að koma ríkinu nokkurn skapaðan hlut við. En það er svolítið önnur umræða. Þessar tölur varpa ljósi á það að ef við gerum ráð fyrir þessum peningum á ári eru þetta afskaplega lágar upphæðir. Það má gera ráð fyrir því að kosningar kosti um 300 milljónir á ári. Við höldum kosningar sem samfélag á þremur af hverjum fjórum árum; sveitarstjórnarkosningar, forsetakosningar og alþingiskosningar. 300 millj. kr. eru vissulega mikið fyrir einstakling en í samhengi við fjárlög eru þetta engar upphæðir og vissulega ekki þegar kemur að mikilvægi undirstöðu siðmenntaðs samfélags, sem er auðvitað lýðræði og allt sem því fylgir, þar á meðal einstaklingsfrelsi o.s.frv.

Við erum algerlega sátt við að þurfa að borga fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir löggæslu og mannréttindavernd, dómskerfið og aragrúa af stofnunum sem við erum meira að segja ósammála um hvort eigi yfir höfuð að vera á ríkisspenanum eða ekki. En alltaf þegar við ræðum lýðræðisumbætur er kostnaðurinn allt í einu orðinn ægilega mikið vandamál. Mér finnst þetta skrýtið, virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á því hvaðan þetta kemur. Kannski hljómar lýðræðið einfaldlega of gott til að vera satt en það er það ekki. Lýðræðið er ekki of gott til að vera satt. Það er einfalt, ódýrt en umfram allt er það sjálfsagt. Þess vegna eigum við ekki að láta einhverja smáaura, samanborið við fjárlögin, stöðva okkur í að koma í gegn jafn sjálfsögðum breytingum og þeim að ráðherrar víki úr þingsæti meðan þeir eru ráðherrar. Og þótt lengra væri gengið.

Nú hef ég ekki fleira til að ræða að þessu sinni, sér í lagi með hliðsjón af því að ég á einungis eftir tvær mínútur. En ég fagna þessu máli, jafnvel ef það verður eingöngu til að vekja umræðu um þessi mál því að þetta skiptir máli. Þegar við urðum að lýðveldi kláruðum við aldrei ferlið að mínu mati. Við reyndum að klára það á síðasta kjörtímabili. Það hefur ekki enn þá tekist en við verðum að halda umræðunni áfram og við megum aldrei missa sjónar á því að við erum lýðveldi. Við ætlum að hafa hlutina þannig í þessu landi að valdið komi frá þjóðinni og til þingsins og upp á við en ekki öfugt. Þótt það sé ekki lögfræðileg útskýring á gangi mála er það grundvallaratriði sem við eigum aldrei að víkja frá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)